Theresa may segir af sér sem forsætisráðherra bretlands

Theresa May hefur tilkynnt að hún muni segja af sér sem formaður Íhaldsflokksins og þar með sem forsætisráðherra Bretlands þann 7. júní næstkomandi. Tilkynnti hún formlega um þessa ákvörðun sína í morgun og sagði mestu eftirsjá sína vera að hafa ekki náð að koma Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, í gegnum breska þingið. The Guardian eru meðal þeirra miðla sem greina frá.

May hefur verið undir stigmagnandi pressu af hálfu samflokksmanna sinna um að segja af sér vegna meðhöndlun hennar á Brexit. Samningur hennar við Evrópusambandið vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu hefur verið felldur þrívegis í breska þinginu og hefur vantrauststillaga í hennar garð sömuleiðis verið sett fram innan Íhaldsflokksins, þó hún hafi verið felld.

Steininn tók loks úr þegar May tilkynnti um áætlun sína um nýjan Brexit samning. Samningurinn vakti reiði meðal samflokksmanna hennar og auðnaðist May ekki heldur að fá þingmenn Verkamannaflokksins á sitt band, sem hún hafði vonast eftir.

May fundaði með Graham Brady, formanni nefndar þingmanna Íhaldsflokksins sem eru ekki í flokksforystu, í gær. Nefndin hafði hótað því að setja fram aðra vantrauststillögu í garð May og var það því niðurstaða fundarins að hún myndi fremur segja af sér.

Nefndin mun sjá um kosningar um nýjan formann íhaldsflokksins og er áætlað að ferlið hefjist þá þegar 7. júní, þegar May lætur formlega af störfum. Er gert ráð fyrir að kosningabaráttan muni vara í um sex vikur.

Enn óvissa vegna Brexit

Breska þingið hefur eins og áður segir ekki samþykkt útgöngusamning vegna Brexit. Bretland hefur frest til 1. október á þessu ári til þess að freista þess að komast að niðurstöðu. Samþykki breska þingið ekki útgöngusamning mun Bretland ganga úr ESB án samnings, sem er talið að muni hafa afar slæmar efnahagslegar afleiðingar fyrir Bretland.

Það kemur nú í hlut nýs forsætisráðherra að reyna til þrautar að semja að nýju við ESB, sé sambandið opið fyrir því, og koma útgöngusamningi í gegnum þingið.

Hugmyndir um að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu hafa verið viðraðar en hvorki flokksforysta Íhaldsflokksins né Verkamannaflokksins hafa verið opin fyrir því. Umræðan innan breska þingsins virðist því einungis snúast um hvernig útgöngu úr ESB verði háttað, ekki hvort útganga eigi sér stað yfir höfuð.