Þeir baða viðkom­andi í dýra­blóði eða drullu: það sem töfralæknar eru búnir að hafa af þjóðarbúinu

Sveinbjörn Jónsson, sjómaður og ellilífeyrisþegi líkir sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar við töfralækna frumstæðra þjóðfélaga. Sveinbjörn birtir opið bréf til Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra í Morgunblaðinu. Bréf Sveinbjörns hefst á þessa leið:

„Í frum­stæðum þjóðfé­lög­um eru til menn sem kall­ast töfra­lækn­ar eða töframenn. Þeir skreyta sig oft með fjöðrum, skelj­um og bein­um og öðru þess hátt­ar og dansa í kring­um varðeld með fett­um og brett­um. Síðan veit­ast þeir að höfðingj­an­um og tjá hon­um að mik­il ógn sé fram und­an ef ekki verði farið að ráðum þeirra,“ segir Sveinbjörn og bætir við:

„Þeir baða jafn­vel viðkom­andi í dýra­blóði eða bara drullu og segja hon­um að það geti komið í veg fyr­ir bölið og vilja þá einnig fá ríf­lega umb­un fyr­ir þjón­ust­una. Í nú­tímaþjóðfé­lög­um kalla staðgengl­ar þess­ara manna sig sér­fræðinga og starfsaðferðir þeirra hafa lítið breyst. Flest­ir sér­fræðing­ar gefa sig út fyr­ir að leysa vanda­mál en ef vanda­mál eru ekki fyr­ir hendi þarf að gefa út svart­ar skýrsl­ur. Síðan er sak­laus­um valda­mönn­um sagt að ef ekki verði gripið til öfga­kenndra aðgerða muni allt fara til and­skot­ans.“

Þannig koma sérfræðingarnir að mati Sveinbjörns í veg fyrir að aðrir blandi sér í málið, þeir halda fram að hlutirnir séu flóknir og enginn annar að þeirra mati fær um að benda á aðrar leiðir eða hvernig hægt sé að leysa hlutina. Þá hafi sérfræðingarnir fengið stjórnmálamenn til að setja lög þannig að þeir hafi einkarétt á að veita þá þjónustu eða ráðgjöf sem á þarf að halda.

„Þeir hafa komið því þannig fyr­ir að ef svo ólík­lega vildi til að aðrir yrðu tekn­ir fram yfir þá hafi þeir jafn­vel skaðabóta­rétt á hend­ur vald­haf­an­um, sem oft­ast er ríkið. Þetta eru að sjálf­sögðu mann­rétt­inda­brot á þeim sem ekki hafa aflað sér til­skil­inna sér­fræðirétt­inda en eru oft á tíðum miklu hæf­ari en um­rædd­ir sér­fræðing­ar.“

Þá segir Sveinbjörn að töframenn svörtu skýrslnanna, eða sérfræðingarnir hafi haft af þjóðarbúinu um það bil fimm milljóna tonna þorskafla á aldarfjórðungi og þá annað eins eða meira í hliðartegundum og loðnu. Sveinbjörn segir:

„Ég er elli­líf­eyr­isþegi og er að verða bú­inn að vinna upp í þann launa­kvóta sem mér er ætlaður í ár áður en ég þarf að greiða rík­inu 80% vinnu­launa minna. Ég verð því að fara þess á leit við þig að þú umb­un­ir mér svart það lít­il­ræði sem þér finnst ég eiga skilið ef þú vilt fá mig til að út­skýra bet­ur fyr­ir þér hvernig töframenn svörtu skýrsln­anna höfðu af þjóðarbú­inu u.þ.b. fimm millj­óna tonna þorskafla á ald­ar­fjórðungi og annað eins eða meira í hliðar­teg­und­um og loðnu,“ segir Sveinbjörn.

„Ég ætla ekki að reyna að reikna út verðgildi þessa tjóns því þá verður hrunið svo lítið í sam­an­b­urði og það kann að valda leiðind­um hjá því fólki sem missti störf­in sín á sjúkra­hús­un­um og ann­ars staðar þegar Hafró fór með þorskkvót­ann niður fyr­ir 200 þúsund tonn til að byggja upp hrygn­ing­ar­stofn­inn,“ segir Sveinbjörn og bætir við að lokum:

„Ný­lega sá ég eft­ir þér haft að horn­steinn fisk­veiðistjórn­un­ar á Íslandi væri að fara eft­ir vís­inda­legri ráðgjöf. Mér er því ljóst að enn um sinn verður stig­inn dans í kring­um hinn rán­dýra gull­kálf. Hvernig væri að fjár­festa í strápils­um fyr­ir Hafró til að særa ekki blygðun­ar­kennd okk­ar sem enn nenn­um að horfa á aðfar­irn­ar?“