Krónan gefur okkur ekkert val

Hjálmar Gíslason frumkvöðull og fjárfestir svarar málflutningi þeirra sem verja áframhaldandi notkun á íslensku krónunni með yfirveguðum rökum á Facebook-síðu sinni um helgina.

Færsla Hjálmars er svohljóðandi:

„Sumir hafa uppi þá málsvörn fyrir hina sveiflukenndu íslensku krónu að gengi annarra gjaldmiðla sveiflist nú bara líka. Þar á meðal gengi stórra gjaldmiðla s.s. USD, EUR og GBP innbyrðis. Þó vissulega sé það rétt – og hægt að benda á tímabil þar sem þær breytingar eru umtalsverðar – er óstöðugleiki (e. „volatility“) íslensku krónunnar gagnvart þessum sömu myntum langtum meiri en þeirra innbyrðis sé litið til lengri tíma.

En annað skiptir í raun meira máli. Það er stærð og fjölbreytileiki efnahagskerfanna sem standa að baki þessum myntum. Þegar evra lækkar gagnvart dollar hefur það tiltölulega litla lífskjarabreytingu í för með sér fyrir þá sem nota evru. Innfluttar vörur hækka sannarlega í verði, en það eru nær undantekningalaust til sambærilegar vörur sem framleiddar eru á sama myntsvæði. Neytendur velja þá frekar evrópska bíla, evrópskar stílabækur og evrópskt korn. Kaupmáttur neytenda breytist sáralítið.

Þegar gengi íslensku krónunnar lækkar, þá höfum við ekkert val um að kaupa íslenska bíla, íslenskar stílabækur eða íslenskt korn. Eina valið er að kaupa minna. Lífskjör okkar snarbreytast með gengi myntarinnar.

Þetta breytir stórum hluta íslensks viðskiptalífs í rekstur þar sem spákaupmennska með gjaldmiðilinn skiptir meira máli en að gera reksturinn skilvirkari. Það skiptir litlu þó þú náir 1% hærri framlegð af vörunum sem þú selur (nokkuð sem í eðlilegum rekstri er mjög eftirsóknarvert), ef innkaupaverðið á vörunum sem þarf til að fylla lagerinn hefur breyst um 5%. Þetta veldur því að verðlagning verður hærri en annars staðar, annars vegar vegna þess að söluaðilar byggja inn í verðið áhættuvörn gegn slíkum sveiflum og hins vegar vegna þess að það er ekkert mikil áhersla á að gera reksturinn skilvirkari.

Á hinn bóginn bitnar þetta svo á langtímauppbyggingu. Ef val fjárfestis stendur á milli þess að byggja upp atvinnustarfsemi, t.d. í hugverkaiðnaði, á stóru alþjóðlegu myntsvæði, eða litlu sveiflukenndu svæði þá þarf tækifærið að vera þeim mun meira spennandi til að vega upp á móti áhættunni sem í því felst að stærsti kostnaðarliðurinn – launaliðurinn – geti sveiflast um 30-50% á uppbyggingartímanum sé litið til sögunnar.

Krónan ýtir með öðrum orðum undir skammtímahugsun á öllum sviðum – og myndu nú sumir segja að nóg sé samt!

Á endanum munum við átta okkur á þessu, en það er eins víst að við þurfum að taka 1-2 kollsteypur í viðbót áður en samstaða næst um að breyta. Næsta kollsteypa er ekkert alveg á næstu grösum, en hún kemur – það er engin „hætta“ á öðru.“