Sýna enga iðrun: þverneita að nokkuð óeðlilegt hafi átt sér stað

„Sá sem er forhertur sýnir enga iðrun. Í því felst að það er ekki hægt að viðurkenna mistök eða afsaka sig fyrir yfirgengilega framkomu. Ég tel að stjórnmálin undanfarin ár einkennist af forherðingu stjórnmálanna framar öllu öðru. Notkun á orðum eins og „hið svokallaða hrun“ gerir lítið úr veruleika þeirra sem sannanlega lentu í hruni án þess að eiga nokkra sök á því.“

Þetta segir Björn Leví, þingmaður Pírata í pistli í Morgunblaðinu. Hann bætir við að „þvermóðska fyrrverandi dómsmálaráðherra að viðurkenna mistök þrátt fyrir skýra niðurstöðu allra dómstiga að lög hafi verið brotin er skýrt dæmi um forherta afstöðu.“

Björn segir stundum sé ekki ljóst hvort eitthvað sem á sér stað í stjórnmálunum sé ósanngjarnt og óréttlátt, því sumir sjái sömu afstöðuna sem annars vegar forherta á meðan aðrir sjá það sem staðfestu. Björn bendir á að Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafi sagt í umræðum á þingi að hún hafi fylgt lagabókstafnum í einu og öllu við skipan dómara við hinn nýja dómstól. Þessu heldur Sigríður fram þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar. Björn segir:

„ ... sumir sjá það sem staðfestu en aðrir ekki, hvort sem það er rétt eða ekki. Það má nefna ýmis fleiri dæmi um þessi andstæðu sjónarmið; feluleikurinn með skýrslu um skattaskjólseignir Íslendinga, lögbannsmálið og Klaustursmálið eru augljós dæmi.“

Öll málin eiga að mati Björns það sameiginlegt að annað hvort hafi þeir sem hlut áttu að máli þverneitað að nokkuð óeðlilegt hafi átt sér stað eða gert lítið úr atburðarásinni. Björn segir: 

„Það var „ónákvæm tímalína“ eða „stólahljóð“, gerandi gerður að þolanda og sendiboðinn lögsóttur.  Skiptir þetta einhverju máli? Jú, ef það er eitt sem sá forherti getur ekki gert þá er það að læra af mistökum enda í hans huga voru engin mistök gerð. Það var enginn yfirgangur. Engin ábyrgð. Stjórnvöld sem læra ekki af mistökum og gerast ítrekað sek um yfirgang eru léleg stjórnvöld, augljóslega.“

Björn segir að þetta eigi við stjórnvöld í stærra samhengi. Stjórnarandstaðan sé einnig hluti af stjórnvaldinu í sínu eftirlitshlutverki. Þá sé eftirlit oft vandasamt og vanþakklátt starf. Björn bætir við:

„Sérstaklega í forhertu umhverfi þar sem svarið er bara nei, ekkert rangt gerðist og svör sem berast seint eru innihaldslaus.“ Þá segir Björn að lokum í pistli sínum:

„Eftirlitið getur líka verið forhert og ósanngjarnt. Svoleiðis stjórnvöld eru alltaf að gera mistök og vaða yfir allt og alla. Sárin sem slík framkoma skilur eftir sig birtast í vantrausti og rétti plásturinn er ekki þvermóðska heldur auðmýkt. Við þurfum meira aðhald og auðmýkt í stjórnmálin.“