Svona er reynt að stela af þér peningum: mikilvægar leiðbeiningar

Fjárfestasvikum er beint að reyndum sem óreyndum fjárfestum, þau felast til dæmis í óvæntu símtali, skilaboðum, tölvupósti, færslu á samfélagsmiðlum, auglýsingum á netinu, bréfleiðis og svo framvegis. Iðulega innihalda þau „besta tækifæri ársins“ til kaupa á verðmætum af einhverju tagi. Um er að ræða gylliboð, eins og að fjárfesta í rafmynt eða kaupa hlutabréf í fyrirtæki sem þú hefur jafnvel aldrei heyrt af áður.

Þetta kemur fram í færslu á vef Landsbankans. Þar er greint frá því að tilraunir til fjárfestasvika gagnvart viðskiptavinum bankans hafi verið um 60 prósent allra netsvikatilrauna á fyrstu sex mánuðum ársins. Er um mikla aukningu á milli ára að ræða. Landsbankinn gefur einnig nokkur góð ráð sem gott er að hafa á bakvið eyrað. Á vef bankans segir:

Fjársvikarinn heldur því fram að hann þurfi ekki starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi og sýnir ef til vill fram á að hann sé með heimild stjórnvalda eða fjármálaeftirlitsins í eigin heimalandi. Fullyrðingarnar reynast svo allar rangar.

Svikarinn reynir allt hvað hann getur til að sannfæra fórnarlambið um að millifæra fjármuni inn á tiltekinn bankareikning og leggja þannig fé í sjóð eða aðra fjárfestingu sem reynist svo á endanum vera fölsk. Svikarinn lofar mikilli ávöxtun; þetta geta verið fjárfestingar í gulli, dýru víni, rafmynt, aflandssjóðum, skuldabréfaútboðum, fasteignum, afleiðum, kaup á kolefnisjöfnuð og fjölmargt fleira. Listinn getur verið mjög langur.

Því er rétt að ítreka eftirfarandi leiðbeiningar:

  • Verum á varðbergi gagnvart óvæntum tilboðum.
  • Verum á varðbergi gagnvart fólki og fyrirtækjum sem erfitt er að sanna deili á.
  • Verum á varðbergi gagnvart fólki og fyrirtækjum sem bjóða fjárhagsaðstoð að fyrra bragði.
  • Veitum öðrum aldrei bankaupplýsingar okkar.
  • Það er óeðlilegt ef einhver hefur samband við þig og óskar eftir upplýsingum um fjárhagslega stöðu þína.
  • Treystu bankanum ef hann ráðleggur þér að framkvæma ekki greiðslu.
  • Ef þú ákveður samt sem áður að halda áfram, fáðu þá fagálit viðurkenndra sérfræðinga í málum sem þessum, þar með talið lögfræðiálit