Stríð sigurðar og þórðar heldur áfram: segir viðbrögð þórðar harkaleg

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður og fyrrverandi upplýsingafulltrúi fyrri ríkisstjórna, skrifar langa grein í tímaritið Þjóðmál þar sem hann rekur deilur sínar við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, og heldur þeim áfram.

Þetta er hluti af ítarlegri frétt DV um málið en frétt DV má lesa í heild sinni hér.

Í apríl síðastliðnum ritaði Sigurður Már grein í sama tímarit þar sem hann gagnrýndi efnistök Kjarnans sem og eignarhald miðilsins. Uppnefndi hann miðilinn „Kranann“ og sagði hann siðlausan. Í umfjöllun Eyjunnar um þau skrif segir:

„Sigurður Már Jónsson, blaðamaður og fyrrverandi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, gagnrýnir eignarhald, ritstjórnarstefnu og rekstur vefritsins Kjarnans harðlega í nýjasta hefti Þjóðmálasem kom út í dag.

Spyr hann til dæmis hvers vegna sé verið að halda úti þessum miðli sem skili aðeins taprekstri en litlum lestri og uppnefnir miðilinn „Kranann“.

Þá spyr hann hver sé að „halda öndunarvélinni gangandi undir því yfirskyni að Kraninn sé laus við fjárfesta, hagsmunagæslu og rugl,“ og nefnir að einn helsti eigandi Kjarnans hafi verið viðriðinn Panamaskjölin og því sé það siðlaust að Kjarninn hafi gagnrýnt aðra, til dæmis Sigmund Davíð, fyrir aðkomu sína að þeim.“

Sigurður sagði meðal annars í þessari grein:

„Yfirlýsingar stofnenda Kjarnans voru hástemmdar í byrjun. Í einni auglýsingu vefritsins er haft eftir blaðamanni: „[V]ið eigum Kjarnann, engir fjárfestar, engin hagsmunaöfl, ekkert rugl.“ Ekki leið þó á löngu uns útgáfufélag Kjarnans hafði gefið út nýtt hlutafé og fjárfestar hófu að birtast í bakgrunninum og höfðu fljótt eignast á milli 30% og 40% í miðlinum á móti stofnendum. Í hluthafahópinn bættust meðal annarra Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, og Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður flokksins. Þar með höfðu allar fjórar staðhæfingarnar í auglýsingunni fokið út í veður og vind. Miðillinn var ekki í eigu starfsmanna, með fjárfesta og augljós hagsmunatengsl.“

Kæru til siðanefndar blaðamanna vísað tvisvar frá

Þórður Snær brást hart við þessum skrifum Sigurðar og kærði hann í tvígang til siðanefndar blaðamanna en kærum var í bæði skiptin vísað frá, í fyrra sinnið þar sem um þjóðmálaumræðu væri að ræða en ekki blaðamennsku, og seinna á þeim forsendum að um væri að ræða gagnrýni sem ritstjóri þyrfti að þola.

Í nýrri grein sinni í Þjóðmálum segir Sigurður að einstaka blaðamenn hafi orðið undrandi á fyrri grein hans:

„Ég varð var við að einstaka fjölmiðlamenn urðu undrandi á skrifum mínum. Þar hafa birst tvenn sjónarmið: annars vegar að hugsanlega væri ekki hyggilegt að kalla yfir sig reiði ritstjóra Kjarnans og hins vegar að rangt væri að gagnrýna miðilinn á þennan hátt.“

Sigurður segir að viðbrögð Þórðar við skrifum hans hafi verið svo harkaleg að furðu sæti.

Þetta er hluti af ítarlegri frétt DV um málið en frétt DV má lesa í heild sinni hér.