13 rússar ákærðir í trump-málinu

Rob Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna sló þykku striki yfir mótbárur og úrtöluvaðal Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Rússamálinu í dag þegar hann tilkynnti yfirgripsmiklar ákærur Roberts Muellers saksóknara yfir 13 Rússum og þremur fyrirtækjum fyrir margháttaða truflun forsetakosninganna 2016 sem komu Trump vel, svo og ýmis hegningarlagabrot og svikastarfsemi.

Í ákærunni er lýst hvernig Rússarnir og fyrirtækin drógu taum Trumps í kosningunum og stunduðu undirróður í framhaldinu.

Trump hefur jafnan lýst ásökunum um þetta sem tilbúningi og háværar raddir hafa verið uppi um að hann hefði í hyggju uppsögn aðstoðardómsmálaráðherrans en með því að ganga fram fyrir skjöldu í rannsókn Muellers í kvöld er Rosenstein talinn hafa snúið vopnunum í höndum forsetans.

Meðal ákæruatriðanna má nefna auðkennisþjófnað, fjármálasvindl og samsæri. Hópurinn varði milljónum dollara í aðgerðirnar sem hafa staðið í fjölmörum ríkjum Bandaríkjanna allt frá árinu 2014 og var, að því segir í ákærunni, stýrt frá Kremlin af rússneskri stofnun í St. Pétursborg, Rannsóknarstofnun internetmála. Samfélagsmiðlum var óspart beitt: YouTube, Facebook, Instagram og Twitter á þann hátt sem Rússarnir sjálfir nefndu upplýsingahernað.

Rosenstein sagði í tilkynningu sinni um ákærurnar, að í þeim væri ekki að finna ásakanir um að neinir Bandarískjamenn hefðu vitandi vits tekið þátt í athæfinu.

Donald Trump endurtók í Twitter færslu í kvöld að ekkert leynimakk með Rússum hefði átt sér stað. Aðgerðir Rússanna hafi líka hafist 2014, sem var löngu áður en hann gaf kost á sér til forsetaembættisins.

Ákæran í heild (37 síður PDF)