Stóri plokkdagurinn á sunnudaginn

Plokk snýst um að týna upp rusl á förnum vegi þegar gengið er eða skokkað. Stóri plokkdagurinn fer fram á sunnudaginn 28. apríl, en þá hefst plokk sumarið 2019. Samtökin Plokk á Íslandi stóðu fyrir miklum plokkdegi á Degi jarðar í fyrra en þar sem hann lenti á páskum í ár var ákveðið að boða til Stóra plokkdagsins í ár á sunnudaginn næstkomandi.

Ferðafélag Íslands hefur slegist í hóp skipuleggjenda og stendur auk þess fyrir Umhverfisviku frá 25. apríl til 1. maí. Í Umhverfisvikunni verður boðið upp á fjórar umhverfisgöngur, auk þátttöku í Stóra plokkdeginum.

Einar Bárðarson, einn forsvarsmanna Plokks á Íslandi og einn skipuleggjenda Stóra plokkdagsins, og Heiðrún Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Ferðafélagi Íslands, eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þau Stóra plokkdaginn og umhverfisviku FÍ. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Stóri plokkdagurinn

Á sunnudaginn ætla plokkarar að beina sjónum sínum að Reykjanesbrautinni, Vesturlandsveginum og Suðurlandsveg og taka til hendinni í kringum hana. Reykjanesbrautinni verður skipt upp í svæði og vaktir til að reyna að ná sem mestum árangri. Reykjanesbrautin þverar öll stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og er það því von Plokks á Íslandi að plokkarar landsins sláist allir í hópinn og leggi deginum lið með þeim hætti sem þeir telja mögulegt.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra eru meðal þeirra sem ætla að plokka, enda hoknir af reynslu í faginu.

Ferðafélag Íslands mun taka að sér þrjár stöðvar á deginum: Reykjavík – Stórhöfði og Árbær, Reykjavík – Grafarvogur og Grafarholt og Mosfellsbær. Svæðin verða sem hér segir:

  • Reykjanesbær svæði 1-5. Ræst af planinu hjá Bónus á Fitjum. 
  • Vogar svæði 1-3 ræst við bílastæði brúna undir brautina að Vogum.
  • Hafnarfjörður svæði 1-3 ræst af bílastæðinu hjá N1 Lækjargötu.
  • Garðabær svæði 1-2 ræst af bílastæði IKEA. 
  • Kópavogur svæði 1-3 ræst af bílastæði Smáralindar. 
  • Reykjavík Elliðaárdalur og Fossvogs svæði 1-3 ræst af bílastæði Sambíóanna. 
  • Reykjavík – Stórhöfði og Árbær 1-3 ræst af bílastæðinu við Select og Ölgerðina. 
  • Reykjavík – Grafarvogur Grafarholt 1-3 ræst af bílastæðinu hjá Húsasmiðjunni. 
  • Mosfellsbær 1-3 ræst af bílastæðinu við N1.

Umhverfisvika FÍ

Í tilefni af Umhverfisviku Ferðafélags Íslands 2019 býður ferðafélagið upp á fjórar skipulagðar umhverfisgöngur þar sem áhersla verður lögð á umhverfismál. Þátttakendum gefst þar tóm til að skoða umhverfið og umhverfismál frá sem flestum hliðum í hressandi útiveru og góðum félagsskap. Von FÍ er sú að allir fari heim með aukna vitund um eigin umhverfisspor, rjóða vanga og bros á vör.

Ganga umhverfis Elliðaárdal 25. 4 kl. 11. 
Setningarganga Umhverfisviku Ferðafélags Íslands.

Ganga umhverfis Helgafell í Hafnarfirði – 29.4. kl. 18
Grænn lífstíll í samstarfi við Grænar Ferðir

Ganga umhverfis Úlfarsfell – 30. apríl kl. 18
Drögum úr plastnotkun

Ganga umhverfis Elliðavatn 1. maí kl. 11
Minnkum kolefnisfótsporið