Sýningin klikkar algjörlega

„Höfum við ekki öll þörf fyrir að hlæja svolítið og gleyma stað og stund?“, spyr Bergur Þór Ingólfsson leikari í sýningunni sem nefnist Sýningin sem klikkar á Nýja sviði Borgarleikhússin.

Bergur Þór og Birna Rún Eiríksdóttir, leikkona sem einnig er í sýningunni komu við í síðasta þætti Þjóðbrautar hjá Lindu Blöndal á fimmtudaginn 5.apríl

Leikstjóri er Halldóra Geirharðsdóttir og leikritið þýddi Karl Ágúst Úlfsson. Sjö leikarar fara með hlutverkin. Leikritið fjallar um leikhóp sem setur upp afar illa undirbúna leiksýningu. Þetta er gamanleikrit, stofukrimmi í anda Agöthu Christie nema sýningin, sem nefnist Morð á meðal vor, er algert klúður, hvert sem litið er. Leikmyndin virkar ekki sem skyldi, hurðir opnast ekki, leikmunavörðurinn hefur ekki staðið sig í að koma fyrir hlutum á réttum stöðum og leikararnir kunna ekki almennilega textann sinn, svo eitthvað sé nefnt.

Úr þessu verður ótrúleg atburðarás þar sem allt klikkar sem klikkað getur og rúmlega það - á meðan streða leikararnir við að koma til skila hinu dramatíska morðgátuleikriti – ein leika það afar illa.

Sýningin hefur uppbyggingu farsa en er það þó ekki. Misskilningur eins og í sígildum farsa er ekki grundvöllurinn „Samt hefur þetta einhver einkenni farsa og einhver einkenni trúðleiks“, segir Bergur Þór.

„Mistökin eru þannig að það verða bara fleiri mistök af því að við getum ekki hætt að taka rangar ákvarðanir sem í pínu eins og lygin sem er einkenni farsa“, segir Birna Rún. „Þegar þú ert komin svona djúpt í að taka rangar ákvarðanir þá er eins og það sé engin leið til baka. Þú heldur bara leikritinu áfram sama hvað“, segir hún og meinar leikhópinn sem setur upp sýninguna sekkur æ dýpra í ruglið eftir því sem sýningunni heldur fram.

„Það er rosalega gaman að leika þetta. Þú ert í þeim aðstæðum að þú þarft að vera með yfirhylmingu yfir einhverjum mistökum og að leika tvö leikrit í einu, við erum að leika Morð á meðal vor og Sýninguna sem klikkar. Þetta er leiktæknilega mjög skemmtileg gáta“, bætir Bergur Þór við.

Verkið var fyrir nokkrum árum skrifað af nýútskrifuðum þremenningum í Edingborga og fékk Olivier-verðlaunin sem besti gamanleikurinn í Bretlandi 2015 og hefur gengið fyrir fullu húsi síðan það var frumsýnt árið 2014. Þar hefur einnig svo verið sett upp á Broadway.