Stjórnarmeirihluti fyrir fjölmiðlafrumvarpi

Stjórnarmeirihluti fyrir fjölmiðlafrumvarpi

„Já, það er stjórn­ar­meiri­hluti fyrir því,“ segir Lilja Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, þegar hún er spurð hvort að hún sé örugg um stuðning við frum­varp sitt um styrki til einka­rek­inna fjöl­miðla.

Frum­varpið hefur verið gagn­rýnt út ýmsum átt­um, meðal ann­ars af hluta þing­manna Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Lilja segir að þing­menn hafi alltaf skoð­anir á frum­vörpum sem komi fram og að hún geti vel tekið slíkri gagn­rýni. Markmiðið sé hins vegar að efla sjálf­stæða fjöl­miðla og hún minnir á að hún hafi sagt að það þurfi að taka fleiri skref til þess að gera það eftir þetta.„Ég vonast til að fá fleiri með í þeirri veg­ferð.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í við­tali Þórðar Snæs Júl­í­us­son­ar, ritstjóra Kjarn­ans, við Lilju í frétta- og umræðu­þætt­inum 21 á Hring­braut í kvöld. Þar ræðir Lilja meðal ann­ars einnig aðgerð­ar­á­ætlun stjórn­valda í mál­efnum kenn­ara, við­brögð við dómi Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu og stöðu mála í efna­hags­líf­inu. Kjarninn greinir frá.

Hér má sjá brot úr viðtalinu:

Aðspurð um hvenær megi eiga von á því að frum­varpið um stuðn­ing við einka­rekna fjöl­miðla, sem birt var í sam­ráðs­gátt stjórn­valda í upp­hafi árs, verði lagt fram á þingi segir Lilja að verið sé að fara yfir þær athuga­semdir sem borist hafa.

Vinnan sé vanda­verk vegna þess að þetta sé í fyrsta sinn sem verið sé að kynna aðgerðir til að styðja við einka­rekna fjöl­miðla. „Í þar síð­ustu viku átti ég fund með danska menn­ing­ar­mála­ráð­herr­an­um, henni Mette Bock. Þar er umhverfið þannig að rík­is­fjöl­mið­ill­inn er til að mynda ekki á aug­lýs­inga­mark­að­i.“

Nánar er rætt við Lilju í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast