Stirt á milli bjarna og davíðs: ekkert um afmæli sjálfstæðisflokksins í morgunblaðinu

„Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og eitt stærsta nafnið í sögu hans hefur nú ritstýrt Morgunblaðinu í áratug. Núverandi formaður flokksins, sem hefur gengt embætti um það bil jafn lengi, skrifar grein í dag í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. En nú ber svo við að grein Bjarna Benediktssonar í tilefni af afmælinu birtist ekki í Morgunblaðinu, ekki í þessu blaði sem hefur átt svo langa samfylgd með Sjálfstæðisflokkinn og hefur sjálfan Davíð Oddsson að ritstjóra. Nei, hún birtist í Fréttablaðinu.“

Þannig hefst pistill eftir Egil Helgason á Eyjunni. Það hefur vakið athygli í dag að lítið fer fyrir skrifum um afmæli Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar hins vegar langa grein og birtist hún nokkuð óvænt í Fréttablaðinu. Samkvæmt heimildum Hringbrautar er stirt á milli Bjarna og Davíðs. Líkt og Egill Helgason bendir á var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður árið 1929 þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn runnu saman. Velta áhugamenn um stjórnmál því nú fyrir sér hvort það sé að gliðna á milli þessara hugmyndastrauma. Af grein Bjarna Benediktssonar má ráða að hann sé að taka sér stöðu með arfleið hinna frjálslyndu.

Grein Bjarna

Greinin Bjarna ber heitið Kjölfesta í 90 ár og þar er meðal annars lögð áhersla á að Sjálfstæðisflokkurinn sé „alþjóðlega sinnaður framfaraflokkur“. Bjarni segir:

„Ólafur Thors var forsætis- og utanríkisráðherra þegar Ísland sótti um aðild að Sameinuðu þjóðunum, Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra þegar Ísland gekk í NATO og forsætisráðherra þegar við gerðumst aðilar að EFTA. Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður. Afstaða okkar sjálfstæðismanna til alþjóðlegrar samvinnu hefur alltaf verið skýr og einörð. Við höfum staðið vörð um fullveldið og nýtt þá möguleika sem sjálfstæðið gefur okkur í alþjóðlegu samstarfi.“

Um greinina segir Egill Helgason:

„Þar er Davíðs Oddssonar reyndar getið fyrir verk snemma á stjórnmálaferli sínum. En ætli sé nokkuð ofmælt að núorðið standi þessi fyrrverandi forsætisráðherra næst Miðflokknum ef ráða má af skrifum hans.“