Steingrímur segist engin lög hafa brotið

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum fjármálaráðherra, hafnar því alfarið að hafa brotið lög þegar hlutir ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka voru framseldir til slitabúa Kaupþings og Glitnis síðla árs 2009.


Fréttir þess efnis að Steingrímur hefði farið á svig við lög og heimildir í þessum efnum um málið komust í hámæli í gær eftir að Morgunblaðið birti umsögn Jóns Gunnars Jónssonar forstjóra Bankasýslu ríkisins meðferð og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum á síðasta kjörtímabili, en þar segir að samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar hefði þurft að afla heimildar í fjárlögum fyrir árið 2010 fyrir sölunni, sem vel að merkja, ekki hafi verið gert, enda voru samningar um framsalið gerðir annars vegar 3. september og hins vegar 15. október 2009. Fjárlög voru hins vegar ekki samþykkt á Alþingi fyrr en 22. desember sama ár, eða rúmum tveimur mánuðum eftir síðari samninginn. 


Steingrímur segir að þegar lesið er beint það sem standi í umsögninni þá sé ekki verið að væna hann um lögbrot. Það sé bara uppsláttur Morgunblaðsins. „Það kemur líka fram í umsögninni að ekki hafi verið gengið frá framsali á eignarhlutunum fyrr en í desemberlok 2009 og í janúar 2010. Þá voru komin lög sem heimila þetta alveg sérstaklega. Það var afstaða ráðuneytisins að þar sem ekki stæði til að ríkið væri ekki að fá borgaðan út hlutinn sem þeir settu inn í bankana þá þyrfti ekki sjálfstæða lagaheimild fyrir því. Þá dyggðu heimildir neyðarlaganna. Ég fæ ekki betur séð en að í greinargerð frumvarpsins sem fylgir frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á þessum lögum að ráðuneytið sé enn þessarar skoðunar.“


Steingrímur segir Ríkisendurskoðun ekki hafa talað beint um sölu heldur ráðstöfun eigna í áliti sínu. „Það getur vel verið að þetta sé í einhverjum skilningi fjárreiðulaga ráðstöfun, þegar samningarnir um bankana voru gerðir. Þá var skynsamlegt til að taka af allan vafa heimild fyrir því að þessir samningar yrði fullgildir. Þeirra var aflað og þau lög voru samþykkt í desember 2009 áður en þessi eiginlega yfirfærsla átti sér stað. Deilan um það hvort það þurfti sérstaka lagaheimild eða ekki var aldrei útkljað vegna þess að það reyndi aldrei á það. Það var engin mótstaða gegn því í þinginu að hafa þetta alveg öruggt með sérlögum. Það var því afgreitt frumvarp á Alþingi í desember 2009 þar sem niðurstaðan um samninganna um bankana var staðfest.“