Steinar berg reiður: „veitir rúv leyfi til þess að dreifa meiðyrðum og óhróðri“

Steinar Berg Ísleifsson lagði Bubba Morthens í héraðsdómi í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn honum. Voru orð Bubba í þættinum Popp og rokksaga Íslands, sem RÚV stóð að framleiðslu á og sýndi, dæmd dauð og ómerk. Samkvæmt dómnum áttu Bubbi og RÚV hvort um sig að greiða Steinari Berg 250.000 kr. Í miskabætur ásamt 2 milljónum króna í málskostnað.

Þá er RÚV gert að birta dómsorð þessa dóms og forsendur í dagskrá sjónvarps innan tveggja vikna frá uppkvaðningu dómsins. RÚV má heldur ekki endurflytja þáttinn. Landsréttur hefur nú snúið dómnum við og sýknað RÚV. Er Steinar Berg afar ósáttur við niðurstöðuna.

Upphaf ósættis Steinars og Bubba má rekja til ummæla Bubba þar sem hann sagði að að útgáfufyrirtæki Steinars hefði grætt óeðlilega mikið á plötum Egó á sínum tíma og sagði að hljómsveitarmeðlimir hefðu fengið lítið fyrir sinn snúð. Steinar var ósáttur við þessi ummæli og sagði lítinn hagnað hafa verið af plötum sveitarinnar.

Eftir sýningu þáttarins í mars 2016 sakaði Steinar Bubba um að gera tilraun til að sverta mannorð sitt. Bubbi hins vegar sagði sagði að samningarnir sem gerðir voru á sínum tíma hefðu verið ömurlegir. Steinar Berg hefði verið í yfirburðastöðu.

En eins og fram kemur hér að ofan var RÚV sýknað. Steinar Berg er ósáttur við niðurstöðuna. Hann segir:

„Þar var RÚV dæmt til miskabóta vegna hlutdeildar sinnar í dreifingu á þætti úr Popp- og Rokksaga Íslands, þar sem Bubbi Morthens veittist að mér opinberlega. RÚV var meðframleiðandi og dreifingaraðili þáttanna. Í Landsrétti var RÚV hinsvegar sýknað. Hér að neðan er úrdráttur Landsréttardómsins ásamt stuttum athugasemdum mínum,“ segir Steinar Berg og birtir eftirfarandi klausu úr dómnum:

„Fyrir Landsrétti leitaði RÚV ohf. ekki endurskoðunar á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að honum væri óheimilt að sýna þáttinn með hinum umþrættu ummælum eða koma með öðrum hætti að dreifingu hans.“

Um þetta segir Steinar Berg: „Sem sagt: RÚV, er óheimilt að sýna þáttinn með hinum dæmdu meiðyrðum eða dreifa honum í framtíðinni.“

Þá skrifar Steinar Berg:

„Landsréttur rakti að endanlegur dómur lægi fyrir um ábyrgð Ásbjörns á þeim ummælum sem voru til umfjöllunar í málinu og skyldu hans til að greiða Steinari miskabætur vegna þeirra á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ábyrgð á ummælunum yrði ekki felld á RÚV ohf. á grundvelli  50. gr. laga um fjölmiðla.“

Sem sagt: Þar sem búið er að dæma Ásbjörn fyrir miskabætur
er því er ekki hægt að dæma RÚV líka! Vísað er til fjölmiðlalaga en lög og reglur um RÚV sniðgengnar. Héraðsdómur var alveg skýr hvað þetta varðar. Bubbi var dæmdur fyrir meiðyrði og RÚV fyrir dreifingu þeirra. Niðurstaða Landsréttar sýnist mér einhverskonar lagatæknilegur útúrsnúningur.“

„Þá þóttu ekki efni til að líta svo á að með því að endursýna umræddan þátt þrátt fyrir fram komnar athugasemdir Steinars hafi RÚV ohf. allt að einu bakað sér skyldu til greiðslu bóta á grundvelli sama ákvæðis skaðabótalaga...“

Steinar Berg segir enn fremur:

„Sem sagt: Landsréttur veitir RÚV leyfi til þess að dreifa meiðyrðum og óhróðri um nafngreindar persónur án þess að viðkomandi fái að koma að athugasemdum þar um og halda svo dreifingu áfram með endursýningum þrátt fyrir að athugasemdum og rökstuðningi hafi verið komið á framfæri fyrir áætlaða endursýningu. Fyrir endursýningu þáttanna sýndi ég RÚV afar skýrlega að fullyrðingar Bubba Morthens í minn garð væru bæði ærumeiðandi og ósannar.“

Segir Steinar Berg að samkvæmt dómnum sjái hann niðurstöðuna á þennan hátt:

„Lagalega ómálefnaleg niðurstaða. Málskostnaður var þó felldur niður. Sef á þessu um helgina. Tek ákvörðun um framhaldið á mánudag. Það er ótrúlega tímafrekt að leita uppi réttlætið... og dýrt.“