Starfsgreinasambandið vísar kjaradeilu til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasambandið vísar kjaradeilu til ríkissáttasemjara

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS
Björn Snæbjörnsson, formaður SGS

Starfsgreinasamband Íslands hefur ákveðið að vísa kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. SGS telur að ekki verði komist lengra í deilunni nema með því að taka þetta skref. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.

Tilkynningin frá SGS í heild sinni:

„Starfsgreinasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa átt í viðræðum um nýjan kjarasamning frá því í október 2018. Á þeim tíma hafa aðilar átt tæplega 80 fundi um sértæk mál, sem og hátt í 30 fundir viðræðunefnda SGS og SA, um forsendur og innihald nýs kjarasamnings.

Ýmislegt hefur þokast áfram á undangengnum vikum í einstökum málum og umræðugrundvöllur til staðar á öðrum sviðum. Þrátt fyrir það er það mat viðræðunefndar Starfsgreinasambandsins að nú verði ekki komist lengra nema með aðkomu ríkissáttasemjara að deilunni, til að skipuleggja og stýra áframhaldandi vinnu.

Í samræmi við umboð frá samninganefnd Starfsgreinasambandsins frá 14. febrúar síðastliðnum, samþykkir viðræðunefnd SGS að vísa kjaradeilu Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir eftirtalin 16 aðildarfélög;

AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.“

Nýjast