Starfsemi samherja skipt upp

Erlenda starfsemi Samherja er komin í sérstakt félag, sem þýðir að hægt er að færa hana úr landi með einföldum hætti, segir í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir þetta einungis snúast um að greina fjárfestingarstarfsemi Samherja í sundur og ekki enn tekin ákvörðun um hvort að félagið um erlenda starfsemi verði staðsett erlendis eða áfram á Akureyri. Þorsteinn segir aðför Seðlabankans skipta máli í þessari ákvörðun.

Í fréttinni segir að hluthafafundur Samherja hafi samþykkti á föstudaginn tillögu stjórnar félagsins um að skipta starfseminni upp í tvö aðskilin félög. Þetta þýðir að ekkert móðurfélag verður starfandi heldur verður sérstakt félag um innlendu starfsemina annars vegar og þá erlendu hins vegar. Innlendi hlutinn verður í Samherja hf. og sá erlendi í Samherja Holding ehf.

Þorsteinn Már segir við VB: „Sú reynsla sem Samherji hefur haft af íslenskri stjórnsýslu undanfarin sjö ár í harðri aðför Seðlabankans að félögunum kann að leiða til þess að skynsamlegt kunni að vera að eiga ekki allt undir slíkri stofnun og ráðamönnum.\"