Staðan mjög alvarleg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins voru gestir Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Þar ræddu þau úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu á mánudaginn um að skipan á fjórum dómurum í Landsrétt hafi brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Þorgerður Katrín segir stöðuna mjög alvarlega í kjölfar dómsins. „Það er enginn sem segir að það sé ekki réttaróvissa í landinu. Það er réttaróvissa. Landsréttur er búinn að segja að allir 15 dómararnir eru búnir að taka ákveðið hlé. Það eru mjög skýr skilaboð um hvernig við eigum og verðum að taka á þessu. Við þurfum bara að vera sammála um það að vinnubrögðin voru til vansa, vinnubrögð dómsmálaráðherra og vinnubrögð þingsins, allra þeirra sem komu að þessu. Við vorum ekki að gera hlutina rétt.“

„Við erum komin í hóp allt í einu, í gegnum Mannréttindadómstól Evrópu, með þjóðum eins og Pólverjum, Rúmenum og Ungverjum. Það er ekkert skemmtilegur hópur að vera í af því að þar er beinlínis atlaga að dómskerfinu. Þess vegna hef ég verið mjög gagnrýnin á það og mér finnst það hættulegt þegar forystufólk í ríkisstjórn, formaður stærsta stjórnmálaflokksins, þegar menn vaða fram fúlir yfir niðurstöðu dómsins af því það er verið að slá okkur ákveðinn kinnhest og segja af einhverri ólund, af því að þetta eru þeirra ráðherrar, að það er nú ekkert endilega að marka Mannréttindadómstól. Það er verið að tala hann niður með þeim hætti að við eigum ekkert að vera að hafa hér vald að utan. Þá þurfum við bara að fara að endurskilgreina okkar hlutverk innan Evrópuráðsins. Ég vil ekki að Ísland verði með í hópi þeirra þjóða sem við vorum að tala um hér áðan. Ég hef viljað einblína á niðurstöðu dómsins og hvernig við fylgjum henni eftir. Við þurfum að fara að svara því hvernig við ætlum að koma dómskerfinu okkar í lag aftur.“ bætir hún við.

Logi er sömuleiðis á því að dómurinn sé alvarlegur. „Við eigum að taka þetta fyllilega alvarlega, vegna þess að það er meginréttur hvers Íslendings að geta sótt sér sjálfstæðan, óháðan dóm. Og jafnvel þó allt þetta fólk sem var á endanum á þessum lista sé fullkomlega hæft til að sitja í þessum dómi, ef það er einhver minnsti vafi á að það hafi önnur sjónarmið verið uppi heldur en hæfni, þá er það bara þannig.“

„Við eigum að taka þetta alvarlega og mér finnst ömurlegt að hlusta á fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar og núverandi fjármálaráðherra eiginlega reyna að fara að grafa undan þessu samstarfi og fara svona að ýja að því að við getum hugsanlega sagt okkur frá honum eða annað slíkt. Vegna þess að við erum kannski á svolítilli ögurstund, Íslendingar og samfélagið, af því að þó að Ísland sé eyland eru Íslendingar ekki eyland, og farsæl þróun í heiminum er algjörlega háð því að við vinnum þéttar saman en við förum ekki að hluta okkur í sundur og reisa einhverja múra,“ segir Logi einnig.

Gunnar Bragi tekur ekki jafn djúpt í árinni en segir dóminn mjög harðorðan. „Dómurinn er mjög ákveðinn og harður. Það er tvennt í þessu, annars vegar er dómurinn harður að mörgu leyti. Hann klofnar líka, minnihlutinn skýtur svolítið á meirihluta dómsins. Ég man ekki hvort það var formaður dómarafélagsins eða einhver annar sem kemur fram og lýsir því yfir í viðtali að þetta sé augljóslega pólitísk undiralda í Evrópu sem hafi áhrif á niðurstöðu dómsins. Ef það er þannig þá er það náttúrulega ekki gott ef það er svona pólitískt andrúmsloft sem er farið að stýra því hvernig dómur er kveðinn upp. Svo er hins vegar annað mál hvort að við viljum ganga jafn langt og formaður Sjálfstæðisflokksins og gefa í skyn að þetta sé inngrip inn í innanríkismál,“ segir Gunnar Bragi um dóminn.

Hann varar við því að dómurinn verði oftúlkaður og segir þörf á því að stíga varlega til jarðar og sjá hvernig túlkanir verði í framhaldinu, ekki síst eftir að búið er að íslenska dóminn. Málinu sé hvergi nærri lokið þar sem til standi að áfrýja því til yfirréttar í Strassborg.

Viðtalið í heild sinni er að finna hér: