Spámiðlarnir allir íslenskir sem hafa sært fjölskyldu jóns – „þá byrja þessi fyrstu skilaboð að koma“

Davíð Karl Wiium bróðir Jóns Þrastar Jónssonar sem hefur ekki enn fundist eftir að hafa horfið sporlaust á Írlandi fyrir sléttum tveimur mánuðum, segir í samtali við Hringbraut að spámiðlarnir og sjáendurnir sem hafi sett sig í samband við fjölskylduna séu allir íslenskir. Hafa spámiðlarnir talið sig vita hvar Jón Þröstur sé niðurkominn. Fyrr í dag óskaði fjölskyldan eftir að spámiðlarnir myndu gefa fjölskyldunni frið. Hafa spámiðlarnir sagt Jón Þröst meðal annars liggja sárkvalinn undir grjóthnullung á engi eða neðan úr byggingarkrana eða brú. Hefur fjölskyldan biðlað til þessa fólks að hafa ekki samband á þessum erfiðu tímum.

„Við fengum nóg í gær,“ segir Davíð við Hringbraut. „Þetta er óþægilegt og særandi. Sérstaklega þegar við vorum erlendis. Ég vil ekki vera með leiðindi en mér finnst þetta helber dónaskapur, sérstaklega í svona rosalega erfiðu máli. Þetta hjálpar ekkert.“ Davíð bætir við að um sé að ræða um tíu íslenska spámiðla sem allir segja sitt hvorn hlutinn. Fjölskyldan sé stór og aðrir eiga erfiðara með skilaboð eins og þessi. Davíð bætir við að hann hafi ekki svarað neinum af skilaboðunum sem hafi borist frá sjáendunum.

„Ég efast ekkert um að langflest af þessu fólki er vel af vilja gert og er að reyna að hjálpa en þetta hefur held ég öfug áhrif. Það er örugglega mikið af fólki sem trúir þessu en þegar þú færð kannski tuttugu mismunandi staðsetningar frá mismunandi fólki, þá er voðalega erfitt að taka mark á einhverju einu frekar en öðru.“

\"\"Davíð segir að fjölskyldan hafi gætt sín á að svara ekki skilaboðunum frá þessu fólki og ekki heldur farið með þau til lögreglu. Slíkt myndi aðeins trufla rannsóknina. Davíð vill ekki nafngrein spámiðlana en beinir þess í stað skilaboðum til þeirra að gefa fjölskyldunni grið.

„Það hefur enginn verið að áreita okkur, það hefur ekki komið til þess. Það má svo sem deila um hvað áreiti er og annað en fólk hefur bara verið að koma áleiðis skilaboðum frá sjálfum sér eða fyrir hönd vina sinna sem eru sjáendur. Þetta hefur allt verið snyrtilega fram sett. Þess vegna ákváðum við að setja fram kurteisa og snyrtilega tilkynningu fyrr í dag.

„Við látum þetta auðvitað ekkert skemma fyrir okkur, en það eru náttúrulega aðilar innan fjölskyldunnar sem eru virkilega brotnir, svona andlega,“ segir Davíð og bætir við: „Ég sjálfur líka þó ég hafi kannski bakið í að taka þetta. Þetta getur komið fólki í töluvert uppnám, hann á börn og fjölskyldu og vini. Þetta er ekkert grín, þó að fólk trúi því virkilega að það sé að finna hann með því að koma upplýsingum á framfæri til okkar.“ Davíð bætir við að fjölskyldan treysti frekar á yfirvöld og viðurkenndar aðferðir.

„Það eru greinilega margir sjáendur hérna á Íslandi!“ segir Davíð. „Líklega eigum við heimsmet miðað við höfðatölu.“ Davíð bætir við að síðustu vikur hafi verið erfiðar.

Hvar er írska lögreglan stödd í rannsókninni?

„Ég held að þeir séu svolítið eins og við að bíða og sjá hvað gerist. Ég held þeir hafi ekki úr miklu að moða. Ég hef heyrt í þeim en fæ loðin svör. Það er ekki eins og þeir séu að reyna að fela eitthvað, þeir hafa úr litlu að vinna. Ég er svolítið svartsýnn, ef ég á að segja eins og er, eins og málið er núna, þó ég sé jákvæður á að þetta leysist. Mér finnst við vera á svolítið erfiðum stað.“

Davíð bætir við að þau reyni að halda málinu gangandi en ekki sé hægt að ætlast að sé sama ákefð hjá öllum eins og var í byrjun. „Við erum að reyna að átta okkur á hvað við eigum að gera en málið er alls ekki að sofna. Þetta er ekki auðvelt verkefni, en þetta eru fagmenn og maður setur traust sitt á þá.“

Hafa ekki borist neinar sterkar vísbendingar um hvað gæti hafa gerst?

„Það dettur inn ein og ein ábending en ekkert sem hefur komið fram síðustu tvo mánuði. Engin stór vísbending komið nýlega. Það þarf ekki mikið að gerast svo þeir komist á sporið. En síðan getur málið kólnar. Á meðan það er von er mikilvægt að halda baráttunni áfram. Fólk er mjög meðvitað um þetta úti. Maður verður að vera jákvæður.“

Tekur þú nærri þér að spámiðlar séu að hafa samband?

„Fyrstu vikuna þegar við vorum að leita voru mjög erfiðar fyrir okkur. Sérstaklega fyrstu tvær vikurnar. Síðan er maður að leita á þessum tíma og hefur þú mikla trú á að þetta leysist, þá byrja þessi fyrstu skilaboð að koma,“ segir Davíð og bætir við:

„Auðvitað er auðvelt að vera bara brjálaður. Á móti vill maður ekki taka út reiði. Fyrir mér er þetta mesta steypa í heimi, fyrir utan karlinn þarna uppi í skýjunum, og allt það. Mín leið er að svara ekki fólkinu. Þetta var farið að ganga fram af fólki í kringum mig eins og þegar var sagt að hann liggur undir einhverjum grjóthnullung, sárkvalinn á einhverju engi og eitthvað álíka bull eða hann hangir úr byggingarkrana eða neðan úr brú. Þetta er bara sjúkt en við viljum halda í jákvæðnina. Fólk er ekki að gera sér grein fyrir sársauka sem þau geta valdið eða jafnvel vakið falska von. Við virðum samt trú þeirra og lífsstíl. Þetta er bara komið nóg.“