Sólveig ósátt og sniðgekk eurovision ásamt kisa: horfði ekki í kvöld - „sögð leiðinlegir fýlupúkar“

Sólveig Anna Jónsdóttir verkalýðsforingi og formaður Eflingar er mjög á móti þátttöku Hatara í Eurovision. Vildi hún að hópurinn myndi sniðganga keppnina vegna voðaverka Ísraela í garð Palestínu. Fleiri hafa gert slíkt hið sama. Illugi Jökulsson rithöfundur sagði að þessar kröfur væru hreinlega frekja. Sólveig hefur ítrekað gagnrýnt þátttöku Hatara-hópsins.

Sólveig ákvað ásamt kettinum Kisa að sniðganga keppnina og horfði ekki á frammistöðu Hatara nú í kvöld. Hatara-hópurinn stóð sig með miklum glæsibrag og hefur hlotið mikið lof bæði hér heima og erlendis fyrir frammistöðu sína. Kötturinn nennti þó ekki að tala við Sólveigu og fór að sofa en Sólveig sjálf ákvað að lesa Þjóðmál og skrifa pistil eftir lesturinn. Sólveig segir:

„Les það fyrir Kisa þegar hann vaknar.“

Þá hefur Sólveig gagnrýnt skrif Illuga Jökulssonar og segir:

„Skrítið og áhugavert að sjá að beiðni fólksins í Palestínu um að við og öll hin sniðgöngum Eurovision hefur engin áhrif, ekki nokkur. Hér er fólk bara búið að ákveða að Hatari hafi sjálfir „dagskrárvald“ og séu stórkostlega mikilvægir pólitískir gjörningalistamenn, bestu og flottustu keppendurnir og að þau okkar í Evrópu sem krefjist sniðgöngu séu leiðinlegir fýlupúkar; það þarf ekkert að hafa orð um það hvort fólkið í Palestínu eru fýlupúkar eða ekki fyrir að vilja ekki halda með Íslandi því að það skiptir hvort sem er engu máli hvað þau segja eða hvað þeim finnst:

Alveg saman hvað fólkið í Palestínu segir, alveg sama þó að þau segi að stjórnvöld í Ísrael noti Eurovision til að hvítþvo sig, alveg sama þó að þau segi að þau vilji ekkert frekar en að við sniðgöngum hlustum við ekki og höldum bara með strákunum okkar. Við getum ekki gert neitt rangt, við þurfum ekki einu sinni að geta útskýrt hvað við erum að meina eða afhverju við trúum því að við getum ekki gert neitt rangt, það er bara svoleiðis; Áfram Ísland, 12 stig!

Ég verð að segja að ég held að ég hafi bara aldrei orðið vör við jafn mikla forréttindablindu og tilraun til jaðarsetningar á skoðunum og vilja kúgaðs hóps eins og núna.“