Smálán sliga æ fleiri ungmenni

Hlutfall ungs fólks sem leitar sér aðstoðar hjá umboðsmanni skuldara fer hækkandi, sem skýrir að hluta aukinn fjölda umsækjenda hjá embættinu síðustu tvö ár. 

Smálánin eru sívaxandi hlutfall af heildarkröfum þeirra sem leita til embættisins og eru nú algengari  en fasteignalánin. Hlutfall smálána af heildarkröfum þeirra sem sækja um ráðgjöf eða greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum.

\"Nú er svo komið að hlutfall smálána af heildarskuldum umsækjenda er nú í fyrsta skipti hærra en hlutfall fasteignalána,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara. Hún nefnir sem dæmi að á árinu 2017 hafi hlutfall smálána af heildarkröfum umsækjenda um greiðsluaðlögun verið 43% en aðeins 18% árið 2015. Á sama tíma hafi hlutfall fasteignalána farið úr 32% niður í 17% í fyrra.
 
Fjöldi þeirra sem sóttu eftir aðstoð hjá umboðsmanni skuldara hefur verið að aukast frá árinu 2015 en á árinu 2017 bárust  470 umsóknir  um greiðsluaðlögun en 386 umsóknir á árinu 2015. Þetta má að hluta til rekja til aukins fjölda yngra fólks sem er jafnframt sá hópur sem tekur frekar smálán.  
Ásta Sigrún hefur áhyggjur af þessari þróun. „Í dag er meirihluti umsækjenda á milli 18-39 ára, eða 57,2% um greiðsluaðlögun og 56,3% umsækjenda um ráðgjöf. Þar af er mesta aukningin í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára, sem hefur t.d. farið úr 14,9% í 23,2% í greiðsluaðlögun. Svo virðist sem yngra fólk leiti frekar til smálánafyrirtækja og flækist fljótt í skuldavef sem erfitt getur verið að losna úr.  

Þörf á aukinni fræðslu um fjármál Ásta Sigrún segir að meginhlutverk embættisins sé að bæta stöðu einstaklinga sem eiga í skulda- og greiðsluerfiðleikum og auðvelda þeim að koma greiðslubyrði og skuldastöðu í ásættanlegt horf. „Við höfum áhyggjur af þessari þróun og áhrifum smálána á fjármál yngra fólks. Ljóst er að þörf er á að efla fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins og hyggst embættið beita sér fyrir því á árinu 2018 og hefur þegar átt samtal við samband íslenskra framhaldsskólanema.  Með þessu aukna aðgengi að lánsfé er enn mikilvægara að fjármálalæsi verði aukið og þeir sem taki þessi lán sé vel upplýstir um hvað það kostar og hverjar afleiðingarnar eru ef þau falla í vanskil.“