Slegið á puttana á guðmundi í brimi

Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefur staðið í tugmilljarðaviðskiptum undanfarnar vikur og mánuði. Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, er gestur Jóns G. Haukssonar í kvöld og ræða þeir meðal annars nýjustu tíðindin af viðskiptum Guðmundar. Brim keypti í HB Granda í sumar, Brim seldi HB Granda Ögurvík á dögunum og í gær var sagt frá því að Brim hefði selt þriðjungshlut sinn í Vinnslustöðinni. En svo kom bomban í morgun þegar sagt var frá því að Samkeppniseftirlitið teldi að Guðmundur væri mögulega sekur um „alvarleg brot“ á samkeppnislögum. Verður skoðun Samkeppniseftirlitsins ekki túlkuð öðru vísi en að það sé að slá á puttana á Guðmundi. Hann hefur birt athugasemdir sínar við bréf Samkeppniseftirlitsins. Í viðskiptunum í gær með bréfin í Vinnslustöðinni fékk Brim 9,4 milljarða króna þannig að Guðmundur hefur styrkt fjárhagsstöðu sína verulega – en hann hyggur á umsvif erlendis á næstunni.