Steingrímur j. í hópslagsmálum á akureyri – logi bergmann: „gekk alveg fram af mér“ - sveinn krossfestur

Nú þegar skólarnir eru að hefjast að nýju er ekki úr vegi að rifja upp hvernig busavígslur fóru fram hér áður fyrr. Þá virtist oft á tíðum sem eldri bekkingar hafi haft það sem sérstakt markmið að niðurlægja busa. Í dag hafa slíkar niðurlægjandi athafnir verið lagðar af að mestu og þess í stað er nú allt kapp lagt á að bjóða busa velkomna.

Hringbraut hefur tekið saman nokkur athyglisverð dæmi af busavígslum frá fyrri árum:

Þingmaður í hópslagsmálum

„Þetta voru að mestu hópslagsmál, ef ég man rétt. Þegar ég var vígður vorum við reknir allir niður í kjallara í gamla skólahúsinu í MA og menn teknir einn og einn og dregnir út fyrir þar sem við vorum tolleruð, bleytt og þess háttar. En við vörðumst auðvitað harðlega og síðasti hópurinn var víst inni á klósettinu á kjallaraganginum þar sem voru nokkrir pústrar.“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við Fókus, fylgirit DV, árið 2002, um það hvernig busanir fóru fram þegar hann var nemandi í Menntaskólanum á Akureyri.

Hann segist svo vitanlega hafa tekið þátt í að busa sjálfur þegar hann var kominn í hóp eldri nemenda. „Svo auðvitað snerist þetta við þegar maður fór í það hlutverk að hræða og kvelja þessi busagrey. Þarna voru gamlar hefðir á ferð og þetta var heilmikil viðhöfn.“

„Það hlaut nú enginn skaða af þessu, menn voru kannski blautir og tóku svolítið á en allt fór fram í góðu. Á köflum gekk þetta kannski út í öfgar og þess vegna var farið í það að skakka leikinn fyrir rest enda mikil átök. Jafnvel gat þetta valdið tjóni hjá ekki bara mönnum, heldur húsmunum, þó svo að ég muni ekki til annars en að þetta hafi farið þokkalega fram þegar ég var þarna,“ sagði Steingrímur einnig.

Fiskiker með mysu, fiðri, eggjum og jafnvel þvagi

\"\"Myglubusi er heiti sem er notað yfir þá sem eru veikir daginn sem busað er. Sigmar Vilhjálmsson, talsmaður FESK, var einn slíkur þegar hann hóf nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

„Þetta þýddi að ég þurfti að verða tekinn fyrir á busadegi næstu annar og fékk tvöfalda útreið þá. Ég var í Menntaskólanum á Egilsstöðum og þá voru menn alltaf beðnir að finna Lagarfljótsorminn og það venjulega í einhverju fiskikeri sem var búið að fylla með mysu, fiðri, eggjum og öðrum viðbjóði. Og það var víst búið að míga í myglubusakarið. Þannig að þetta var mjög hugguleg reynsla,“ sagði Sigmar í samtali við Fókus.

Hann segir busavígsluna hafa verið mjög skemmtilega lífsreynslu. „Mér var dýft nokkrum sinnum ofan í og þurfti ég að segja hvernig Lagarfljótsormurinn væri á litinn sem tókst auðvitað ekki fyrr en í 5. eða 6. tilraun. Svo var ég boðinn upp og máttu eldri nemendur kaupa þjónustu mína og ég lenti á svona skemmtilegum eldri stúlkum sem höfðu ekkert betra að gera við mig en að gefa mér ís. Þannig að þetta endaði ágætlega.“

Hættu með busavígslur eftir gróft ofbeldi í einkabusunum

Nýjasta dæmið er aðeins sex ára gamalt. Í september árið 2013 greindi Morgunblaðið frá því að nýnemar við Fjölbrautaskóla Garðabæjar hefðu verið beittir grófu ofbeldi af eldri nemendum skólans eftir að formlegri busavígslu var lokið.

Kristinn Þorsteinsson, skólameistari FG, ritaði grein í fréttablað skólans þar sem hann sagði að undanfarin ár hefðu svokallaðar einkabusanir færst í vöxt að lokinni hefðbundinni busavígslu innan skólans.

„Þar taka eldri piltar, sumir hverjir ekki einu sinni nemendur í skólanum, nýnema FG og beita þá ótrúlega grófu ofbeldi.“

Því hefðu skólastjórnendur tekið þá ákvörðun að fleiri busavígslur yrðu ekki haldnar.

Ein versta busavígsla í sögu Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum

\"\"Sveinn Waage lýsir í samtali við Fókus hvernig hann hafi verið tekinn sérstaklega illa fyrir þegar hann var busi í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Hann hafði þá að eigin sögn komið sér í efsta sæti á svörtum lista eldri nemenda með því að neita að láta þá segja sér til.

Sveinn lýsti þessu svo: „Þessi busavígsla markaði nokkur þáttaskil því menn gengu svolítið langt í þetta skiptið. Það urðu handalögmál inni á salnum þar sem var búið að safna okkur saman og var ég valinn úr og yfirbugaður með látum. Þetta gerðist allt áður, athöfnin sjálf var inni, uppboð á busunum, og var ég tekinn út fyrir í frostið og krossfestur á stórt grindverk og bundinn upp eins og frelsarinn. Þá settu þeir auðvitað á mig egg, rakakrem og allar hugsanlegar mjólkurvörur og var ég notaður eins og boxpúði. Svo var ég látinn hanga þarna, á meðan dagskráin gekk yfir, í einhvern hálftíma eða klukkutíma, áður en ég var tekinn niður og þá þurfti ég að fara í gegnum brautina sem var búið að smíða eins og allir aðrir.“

„Þar voru ein 4-5 kör, eitt mjólkurkar, sjókar, svo sápukar og svo framvegis. Við vorum svo strax eftir fyrsta karið látin renna okkur niður um 10 metra langa mjög bratta brekku þar sem við lentum ofan í kurluðum ís sem er oftast notaður í það að kæla fisk. Þar vorum við veidd upp úr og fórum svo í gegnum önnur kör með alls kyns viðbjóði. Og þá var maður smúlaður með vatnsslöngu á eftir. Þetta árið meiddist ein stelpan töluvert á hendi og eftir það var reynt að tóna þetta niður. Þetta var altalað og birtust myndir í blöðunum og þar fram eftir götunum. En ég held að ég geti flokkast undir það að hafa verið tekinn einna verst fyrir í sögu framhaldsskólans Eyjum,“ bætti hann við.

Þvingaðir ofan í vatnstunnur

Í frétt Dagblaðsins frá 1981 er greint frá busavígslu Menntaskólans í Kópavogi, þar sem eldri bekkingar létu busa „bergja af viskubrunninum.“ Þá studdust þeir eldri við nokkrar tunnur fullar af vatni, sem busarnir áttu að drekka úr og komast þannig í siðaðra manna tölu.

\"\"

Vatni þvingað ofan í busa

„Busar áttu að drekka eina ausu eða tvær af vatninu úr vizkubrunninum, en margir voru eigi fúsir til að bergja á. Þeir hinir sömu voru því einfaldlega hafnir á loft og í næstu andrá voru þeir komnir hálfir ofan í tunnuna og á næsta andartaki aftur komnir upp úr,“ segir í umfjöllun blaðsins.

Þar segir einnig að kalt hafi verið í veðri og því talsvert um tannaglamur hjá busunum, sem hefur stafað af því að hafa farið ofan í tunnu fulla af vatni.

Áður en viskubrunnsathöfnin fór fram var busunum smalað út fyrir skólann, þeir færðir í strigapoka, merktir í öllum regnbogans litum og því næst bundnir við langan kaðal. „Eldri bekkingar gengu vasklega fram í því að troða busaræflunum i pokana og tókst það að mestu leyti án átaka, þótt einn og einn væri með uppsteyt,“ segir auk þess í umfjöllun Dagblaðsins.

\"\"

Eldri bekkingar virðast sannarlega hafa gengið „vasklega“ fram

„Gekk alveg fram af mér“

\"\"„Ég var nú fótbrotinn þegar ég átti að verða busaður og slapp því alveg við þá reynslu. En síðar á skólaferlinum varð ég forseti nemendafélagsins (Fjölbrautaskólanum í Ármúla) í einn vetur og við busuðum með þvílíkum látum á fyrri önninni að það gekk alveg fram af mér og eftir það hættum við að busa.“

Þetta sagði Logi Bergmann Eiðsson í samtali við Fókus.

„Á seinni önninni buðum við nýnemunum að koma og fá sér kaffi og með því og hitta kennarana. Þá voru allir auðvitað skelfingu lostnir þar sem þeir höfðu heyrt svaðalegar sögur af busununum í FÁ en síðan held ég að sá siður hafi haldið sér nokkurn veginn.

Ég man að það var byggður einhverskonar gálgi, sem var í raun pallur sem leit þannig út, og busarnir voru leiddir þar upp við hátíðlega athöfn og vígðir sem nemendur í skólann. Við, eldri nemendurnir, vorum klæddir í kjólföt og stóðum vörð. Við höfðum tónað þetta svo rosalega mikið niður enda var og er ekkert vit í því að taka við nýjum nemendum í skólann með því að niðurlægja þá á sem verstan máta.

Menn verða að fara pínulítið varlega í þessum efnum því krakkarnir eru jú á viðkvæmum aldri, enda, engin leið til að bjóða einhvern velkominn í hópinn.“