Skammarlegt

Frammistaða Donalds Trump á fyrsta leiðtogafundi hans og Vladimírs Pútín í forsetahöllinni í Helsinki á mánudag hefur vakið hörð viðbrögð. Eftir holskeflu af skömmum og svívirðingum vegna ummæla hans og framgöngu í heimalandinu reyndi Bandaríkjaforseti af veikum mætti að draga í land í gær. Á fundinum sögulega sagðist hann nefnilega trúa Pútín þegar sá hinn sami neitaði að hafa skipt sér af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016, sem tryggðu Trump forsetaembættið.

Ólöf Skaftadóttir skrifar leiðara Fréttablaðsins.

Raunar sagðist Trump ekki sjá neina ástæðu til að Rússar ættu að hafa reynt að hafa áhrif á kosningarnar, með tölvuárásum, þó að bandaríska leyniþjónustan hafi ítrekað sagt Rússana ábyrga og að aðeins þremur dögum fyrir fundinn hafi tólf rússneskir leyniþjónustumenn verið ákærðir, sakaðir um tölvuárásir á miðstjórn Demókrataflokksins og starfsfólk framboðs Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trumps.

Bandaríska leyniþjónustan hefur enn fremur sagt tölvuárásirnar tilraun til að aðstoða Trump í kosningabaráttunni og skaða framboð Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins.

Eftir harða gagnrýni æðstu þingmanna, embættismanna og áhrifamanna segist Bandaríkjaforseti nú hafa mismælt sig á fundinum. Það sem hann meinti í raun og veru væri að hann sæi enga ástæðu til að Rússar ættu ekki að hafa skipt sér af kosningunum árið 2016. Þetta er auðvitað kostulegur málflutningur hjá þjóðarleiðtoganum.

Flestir stjórnmálaskýrendur litu svo á að ákærurnar tólf sem birtar voru Rússunum á föstudag myndu gera Trump hægara um vik að ganga hart fram gegn Rússlandsforseta í málinu. Gögnin væru skýr og nákvæm. Tímasetning á birtingu ákæranna virðist hins vegar hafa þvert á móti orðið til þess að Trump hrökk í vörn. Hann varði Pútín á fundinum og veigraði sér við því að gagnrýna hann. Þeir sem hafa gengið hvað harðast fram í gagnrýni sinni á frammistöðu Trumps eftir fundinn í Helsinki hafa sagt hann með þessu beinlínis vera sekan um landráð.

Það er erfitt að skilja hvað vakti fyrir forsetanum þegar hann gekk á fund Pútíns. Hver ávinningurinn er af því að standa með Rússlandi, og um leið gegn sinni eigin þjóð, á svo viðkvæmum tímum, þegar ásakanir um að verið sé að grafa undan lýðræðinu sjálfu hafa aldrei verið háværari. En óhjákvæmilega læðist að manni sá grunur að sennilega sjái Trump ekki lengra en nef hans nær. Ef ásakanirnar reynast réttar er réttmæti forsetakjörs hans vitaskuld í húfi.

Atkvæðagreiðsla á nokkurra ára fresti tryggir ekki lýðræði. Það gerir lýðræðisleg hugsun, frelsi og mannréttindi, svo nokkuð sé nefnt.

Þess vegna er með öllu óboðlegt að þjóðarleiðtogarnir tveir, hverra ákvarðanir geta snert okkur öll, standi á stóra sviðinu, á blaðamannafundi fyrir framan heimsbyggðina, ranghvolfi augunum og geri því skóna að þessar grafalvarlegu ásakanir séu á einhvern hátt fáránlegar eða órökstuddar.

Ef forsetanum er meira annt um stólinn sinn en lýðræðið sjálft hefur hann ekkert að gera í Hvíta húsinu.