Simmi vill: „á morgun neyðist ég til að mæta fyrir landsrétt“

„Á morgun neyðist ég til að mæta fyrir Landsrétt og verjast áfrýjun Skúla í Subway.“

Þannig hefst færsla Sigmars Vilhjálmssonar, eða Simmi Villi eins og hann er kallaður, á Facebook. Sigmar segir að mikill tími og orka hafi farið í málaferlin en segir það mikilvægt að standa með sjálfum sér. Skúli í Subway eins og Sigmar kallar hann heitir Skúli Gunnar Sigfússon. Skúli hefur verið virkur í viðskiptalífinu á Íslandi. Fasteignafélagið Sjöstjarnan ehf., sem er í eigu Skúla var í október á síðasta ári dæmt til að greiða þrotabúi félagsins EK1923 ehf. tæpar 223 milljónir króna, auk dráttarvaxta. Skúli átti einnig það fyrirtæki.

Sigmar vann í héraðsdómi árið 2018 vegna viðskiptadeilna þeirra. Skúli áfrýjaði þeim dóm og er meðferð fyrir Landsrétti að hefast. Sigmar segir að deilur þeirra Skúla hafi staðið yfir í 5 ár.

„Þann 21. Júní 2018 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi, dómurinn var mér í hag. Núna, rúmlega ári síðar, er áfrýjunin til meðferðar Landsréttar. Þetta deilumál okkar hefur því staðið yfir í 5 ár. Ég ætla ekki að reyna að koma því í orð hversu mikill tími og mikil orka hefur farið í þetta leiðinda mál (hér á myndunum má sjá brota’brot af þeim gögnum sem fylgja þessu máli). Það er hryggilegt að þurfa að standa í þessu. En það er líka nauðsynlegt að standa með sjálfum sér og þeim prinsippum sem maður vill lifa eftir.“ 

Hann segir að Skúli hafi sagt við sig árið 2014 að hann myndi draga sig i gegnum lagalega klæki og kosta sig fullt af peningum. Hann óskar þess að enginn þurfi að standa í svona.

„Skúli stóð svo sannarlega við þau orð sín árið 2014 að hann myndi draga mig í gegnum lagalega klæki og kosta mig fullt af peningum. Hann hefur kallað til marga af dýrustu lögmönnum og klækjarefum landsins til þess að flækja þetta mál. Enda er kostnaðurinn minn við þetta kominn í hátt á annan tug milljóna. Samt er engin fjárkrafa í þessu máli, þetta er einfaldlega Prinsipp. Ég óska engum að þurfa að standa í svona og hvað þá við gamla viðskiptafélaga.“

Sigmar segir að það sé óþægileg tilfinning að lögmaður Skúla sé einnig lögmaður Mosfellsbæjar, en Sigmar býr þar.

„Eitt af því sem gerir morgundaginn sérkennilegan er að nýjasti lögmaður Skúla er Heiðar Örn Stefánsson en hann er einnig lögmaður Mosfellsbæjar sem er mín heimabyggð. Viðurkenni að það er óþægileg tilfinning. “Price is what you pay. Value is what you get”. Warren Buffett“