Síbrotamenn í hópi atvinnurekenda

Halldór Grönvoldt, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands segir síbrotamenn vera að störfum úti á vinnumarkaðnum sem svíni svo rækilega á erlendu starfsfólki sínu að venjulegan mann skorti ímyndunarafl til að setja sig í spor þessara atvinnurekenda.

Í sláandi og upplýsandi viðtali í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld lýsir hann brotastarfseminni, jafnt hvað kjörin, öryggismál og aðbúnað varðar, en algeng dæmi eru um að hluta launa sé haldið eftir vegna \"ýmiss kostnaðar\" sem er ekkert sérstaklega tilgreindur, afsláttur sé gefinn af öryggisþáttum á vettvangi og fólki sé potað saman í eitt blokkarherbergi sem kosti 70 þúsund á mann á mánuði, ef það þarf þá ekki að hírast uppi á hanabjálki illa búins atvinnuhúsnæðis sem dæmi eru um að hafi kostað menn lífið. 

Halldór segir erlent vinnuafl hafa hjálpað Íslendingum upp úr hruninu og það eigi betra skilið en svona ömurlega framkomu við það.