Sextugur íslenskur karlmaður varð fyrir alvarlegri líkamsárás í marseille

Sextugur íslenskur karlmaður varð fyrir alvarlegri líkamsárás í frönsku borginni Marseille. DV greinir frá og vísar til ábendingar sem miðlinum barst um málið. Í ábendingunni segir að þolandinn hafi verið beittur líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi auk þess að hafa verið rændur.

Lögreglan í Marseille hefur málið nú til rannsóknar en hefur ekki viljað staðfesta upplýsingarnar sem DV hefur undir höndum nema að hluta.

Frá héraðslögreglunni í Bouches-du-Rhône hefur það fengist staðfest að maðurinn sem varð fyrir líkamsárásinni sé sextugur íslenskur karlmaður, að um einn árásarmann hafi verið að ræða og að enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.

Ekki hefur fengist staðfest hvort manninn hafi sakað alvarlega eður ei. Auk þess greinir Fréttablaðið frá því að Utan­ríkis­ráðu­neytið hafi ekki verið búið að fá málið á sitt borð þegar blaðið óskaði upp­lýsinga þaðan.