Sér kosti og galla við komu uber til höfuðborgarinnar

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir að stíga þurfi varlega til jarðar ef fyrirtæki á borð við Uber hefji starfsemi í borginni. Tilkoma slíkra fyrirtækja geti bætt nýtingu á hverjum bíl en gæti einnig aukið umferð.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar er haft eftir Sigurborgu að borgarstjórn hafi lýst stuðningi við að fjöldatakmörkunum á leigubílum verði aflétt en stíga þurfi varlega til jarðar hvað varðar fyrirtæki á borð við Uber.

Hún segist óttast að það leiði til aukinnar umferðar ef Uber eða önnur álíka fyrirtæki hefji starfsemi í Reykjavík.

„Það er mjög gott að fá betri nýtingu á hverju farartæki fyrir sig en það er hins vegar ekki gott fyrir borgina og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ef umferðin er að fara að aukast vegna tilkomu þessara fyrirtækja. Það hefur sýnt sig að það hefur gerst í öðrum borgum. Þetta snýst líka um betri landnotkun. Það er praktískt fyrir okkur að hafa færri bílastæði og nýta borgina betur. Uber getur hjálpað til við þetta en getur líka aukið umferð.“

Fram kemur að til standi að afnema fjöldatakmarkanir á leyfum til leigubílaaksturs samkvæmt drögum að nýju frumvarpi en slíkar takmarkanir eru taldar í andstöðu við EES-samninginn.