Segir ekki hægt að krefja eldum rétt um miska- eða skaðabætur

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við RÚV að lög um starfsmannaleigur séu alveg skýr um ábyrgð notendafyrirtækja sem nýta sér starfsmannaleigur. Kröfum um miska- eða skaðabætur sé einungis hægt að beina gegn starfsmannaleigunni, sem sé vinnuveitandinn. Hins vegar sé hægt að krefja notendafyrirtæki um vangoldin laun og launatengd gjöld.

Sem kunnugt er hefur Efling stefnt starfsmannaleigunni Menn í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt fyrir vangoldin laun fjögurra Rúmena. Í stefnunni kemur fram að farið sé fram á rúmar sex og hálfa milljón króna í vangoldin laun og eina og hálfa milljón á mann í miskabætur vegna vanvirðandi meðferðar og þvingunar- eða nauðungarvinnu.

Ragnar segir enga heimild í lögum vera að finna um starfsmannaleigur til að leggja fram kröfu um miskabætur á notendafyrirtæki, í þessu tilfelli Eldum rétt. Slíkar kröfur skuli alltaf beinast að vinnuveitanda fólksins, sem í þessu tilfelli er Menn í vinnu.

„Það er bara engin lagaheimild fyrir því að hafa þá kröfu uppi í rauninni gagnvart einhverjum öðrum en eigin vinnuveitanda, eftir atvikum. Það er alveg skýrt og það er ekkert túlkun. Þetta er 100 prósent skýrt samkvæmt lögunum að notendafyrirtækið ber einungis ábyrgð á hugsanlega vangoldnum launum og eftir atvikum launatengdum gjöldum sem tengjast þá starfstímanum hjá viðkomandi fyrirtæki. Það eru engar aðrar greiðslur sem hægt er að sækja, í rauninni, á notendafyrirtækið,“ segir Ragnar við RÚV.

Í 4. grein b í lögum um starfsmannaleigur segir um ábyrgð notendafyrirtækja: „Ábyrgð notendafyrirtækis nær til vangoldinna launa og starfskjara sem starfsmaður hefði að lágmarki átt að njóta, sbr. 5. gr. a, á þeim tíma sem hann sinnti störfum fyrir notendafyrirtækið sem og vangoldinna launatengdra gjalda. Ábyrgðin nær ekki til vangoldinna orlofslauna.“

Í 5. grein a í lögunum segir um réttindi starfsmanna: „Starfsmaður starfsmannaleigu skal á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.“

Eldum rétt beri keðjuábyrgð

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Eflingar, sagði í fréttum RÚV á dögunum að það væri ljóst að Eldum rétt bæri keðjuábyrgð í málinu samkvæmt lögum um keðjuábyrgð frá árinu 2018. Nokkuð víst þykir að þessi ábyrgð taki til vangoldinna launa.

Segir enda í lögunum um keðjuábyrgð að ábyrgð notendafyrirtækis um starfsmannaleigur nái til vangoldinna launa og annarra launaþátta starfsmanna allra innlendra sem erlendra fyrirtækja í öllum atvinnugreinum sem það gerir samninga við.