Signa hrönn: „amma grét ein í hljóði í hjólastólnum sínum“

86 ára gömul kona sem glímir við heilabilun fær ekki viðunandi meðhöndlun á öldrunarheimili á Akureyri. Ástæðan er mikil mannekla á deildinni sem hin aldraða kona dvelur á. Signa Hrönn Stefánsdóttir, barnabarn konunnar, segir í samtali við Fréttablaðið að hún harmi ástandið.

Signa segir mannekluna vera slíka að stundum sé aðeins einn starfsmaður á vakt á níu manna deild og tekur fram að allir sjúklingar deildarinnar þurfi mikla aðhlynningu. „Allir sem eitthvað vit hafa sjá að þetta gengur ekki upp. Hvernig á ein manneskja að geta sinnt öllu þessu fólki og þeirra þörfum?“ spyr Signa.

Þegar deildin er fullmönnuð eru tveir starfsmenn á vakt en að hennar sögn koma oft upp forföll á deildinni og þá er það í höndum einnar manneskju að sjá um klósettferðir, baðferðir, að elda og gefa fólki að borða ásamt því að halda öllu heimilinu snyrtilegu.

Signa bendir á að leikskólakennarar megi ekki hafa meira en fimm börn en að það virðist þó vera í lagi að ein manneskja sjái um níu fullorðna einstaklinga. „[B]ara af því að þeir eru gamlir.“

Hún segir ljóst að deildin sem amma hennar dvelur á sé ekki sú eina sem glími við manneklu sem valdi því að starfsfólk geti ekki sinnt vinnu sinni sem skyldi.

„Ástæða þess að maður hikar við að tala um þetta er að það bitnar alltaf á starfsfólkinu sem á það minnst skilið,“ segir Signa og bætir við að ekkert sé við starfsfólkið að sakast. Það sé undir gríðarlegu álagi og fái verkefni sem krefjist yfir þrjú hundruð prósent vinnu.

Signa segir ekkert við starfsfólk að sakast sem sé undir gríðarlegu álagi og fái verkefni sem krefjist yfir þrjú hundruð prósent vinnu. „Þegar það er ekki nóg af starfsfólki er ekki hægt að hugsa um einstaklingana eins og það ætti að vera gert.“

Óásættanlegt ástand

Signa segir að vegna ástandsins á öldrunarheimilinu vilji hún helst hafa ömmu sína heima hjá sér en að hún geti það ekki þar sem hún sé sjálf með sín börn og því ekki með aðstöðu til þess.

„Móðursystir mín kom í heimsókn um daginn þar sem amma grét ein í hljóði í hjólastólnum sínum,“ segir Signa og bætir við að stundum þurfi amma hennar að bíða með að fá að fara á klósettið vegna þess að starfsmaður er upptekinn við að sinna þörfum annarra sjúklinga.

„[Þ]á hlýtur eitthvað að vera að kerfinu,“ segir hún. Signa gefur lítið fyrir afsakanir stjórnarmanna um að það sé ekki til nóg af peningum til að sinna heilbrigðiskerfinu ekki. Það standist ekki og segir hún að peningum sé einfaldlega eytt á röngum stöðum.

Signa vonast til þess að yfirvöld taki dæmisöguna af ömmu hennar til sín og bregðist við vandanum.

Umfjöllun Fréttablaðsins um málið í heild sinni má lesa hér.