Samið um gagnkvæman aðgang

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra Færeyja gengu í gær frá samningi um fiskveiðiheimildir Færeyinga innan íslenskrar efnahagslögsögu fyrir næsta ár. Einnig var samið um gagnkvæman aðgang að veiðum í lögsögu beggja. Hvorki voru gerðar breytingar á heimildum Íslands að veiða makríl og Hjaltlandseyjasíld í færeyskri efnhagslögsögu né á gagnkvæmum aðgangi þjóðanna til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld í efnahagslögsögu beggja. Þorgerður Katrín er fyrsta konan til að gegna embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hún stýrir nú málefnum þessara mikilvægu atvinnugreina. Þorgerður Katrín var kosin á Alþingi í október 2016 fyrir Viðreisn í Suðvesturkjördæmi.