Vilja auka framlög til öryrkja og fatlaðra um fimm milljarða í stað átta milljarða niðurskurðar

Samfylkingin telur að ríkisstjórnin taki skref aftur á bak með breytingartillögum við eigin fjármálaáætlun. Flokkurinn segir að ríkisstjórnin ætli að láta þá hópa sem sátu eftir í uppsveiflunni taka höggið af niðursveiflunni; öryrkja, námsmenn, aldraða og fjölskyldur með lágar- eða meðaltekjur.

Enn fremur segir Samfylkingin að breytingar á fjármálastefnu sé alvarlegur áfellisdómur yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Stefnan hafi átt að duga í fimm ár en hún eingöngu lifað í rétt um eitt ár. Fjármálaráð hefur bent á veikleika í hagstjórn stjórnvalda og skort á vönduðu verklagi. Samfylkingin hefur sömuleiðis varað við óábyrgri hagstjórn og gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að gera ráð fyrir 14 ára samfleyttum hagvexti og óbreyttu gengi næstu fimm ár við áætlanagerð. Samfylkingin hefur lagt fram tíu breytingartillögur við fjármálaætlun sem eiga að taka til sérhvers árs í áætluninni. Þar má nefna að framlög til loftlagsmála eigi að hækka um 8 milljarða á ári og framlög vegna húsnæðisstuðnings hækki um 2500 milljónir króna.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur verið harðlega gagnrýndur vegna þeirrar ákvörðunar að ætla að lækka framlög til öryrkja og fatlaðra um 8 milljarða króna. Í stað þess að lækka framlög vill Samfylkingin auka þau um 5 milljarða. Flokkurinn hefur einnig lagt fram tillögur að tekjuaukningu ríkissjóðs um 23 milljarða. Meðal tillaga sem má nefna er frestun bankaskatts, sem þau áætla að skili inn 8 milljörðum til ríkissjóðs, og aukið skattaeftirlit, sem þau áætla að skili inn 5 milljörðum til ríkissjóðs. 

Samfylkingin segir að með breytingartillögum sínum vilji flokkurinn horfa lengra fram í tímann en næsta kjörtímabil og fjárfesta í menntun, nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum, og setja mun meira fjármagn í baráttuna gegn hamfarahlýnun.                                                                                       

Hér að má sjá tillögur Samfylkingarinnar:

1.    Framlag til loftslagsmála hækki um 8 milljarða kr.

2.    Framlag til framhaldsskóla aukist um 1 milljarð kr.

3.    Framlag til háskóla aukist um 1 milljarð kr.

4.    Framlag til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um 1 milljarð kr.

5.    Framlög til húsnæðisstuðnings aukist um 2,5 milljarða kr

6.    Framlag til öryrkja aukist um 5 milljarða króna.

7.    Framlag til aldraðra aukist um 1 milljarð kr.

8.    Framlög til fæðingarorlofs hækki um 400 m. kr.

9.    Framlög til barnabóta aukist um 1 milljarð kr.

10.  Framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu aukist um 1,8 milljarða kr.

Tekjuúrræði til að mæta auknum útgjöldum upp á 23 milljarða kr.:

1.    Auðlindagjöld: Hækkun um 3 milljarða kr.

2.    Fjármagnstekjuskattur: Hækkun um 3 milljarða kr. með 2%-stiga hækkun

3.    Tekjutengdur auðlegðarskattur: 3 milljarðar kr.

4.    Kolefnisgjald: Hækkun um 1 milljarð kr. 

5.    Skattaeftirlit: 5 milljarðar kr.