Salan á „guggunni“ dregur dilk á eftir sér

Það er mörgum enn í fersku minni þegar eitt mesta aflaskip vestfjarða, Guðbjörgin ÍS, var seld Þorsteini Má Baldvinssyni í Samherja árið 1997. Fyrrum alþingismaðurinn Kristinn H. Gunnarsson rifjar upp á heimasíðu sinni þegar Þorsteinn Már lofaði ísfirðingum því að útgerðin yrði áfram á Ísafirði. Og ekki nóg með það, heldur yrði hún áfram gul að lit og héldi nafninu ÍS, en þau loforð voru öll á endanum svikin.

Kristinn birtir skjal  á síðu sinni, með undirskriftum Þorsteins Más og Ásgeirs Guðbjartssonar, skipstjóra Guðbjargarinnar og eiganda Hrannar, útgerðarfélagsins sem átti og rak Guðbjörgina, þar sem fram kemur að útgerðin verði áfram með sama hætti. Þar segir orðrétt:

 

„Fréttatilkynning. Hluthafar Samherja h.f. Akureyri og Hrannar h.h. Ísafirði hafa undirritað samkomulag um að sameina þessi sjávarútvegsfyrirtæki. Samkomulag er um að útgerð Guðbjargar ÍS verði óbreytt frá því sem verið hefur á Ísafirði.“

\"Samherji_skjal.jpg\"

 

Árið 1999 var Guðbjörgin seld til Þýskalands. Í fréttum frá þessum tíma var talað um að munnlegt samkomulag hefði verið gert um að útgerðin yrði áfram á Ísafirði, en nú hefur hið skriflega loforð skotið upp kollinum.

Um þetta segir Kristinn:

„Nú hefur fengist staðfest það sem Ásgeir heitinn Guðbjartsson hélt fram á sínum tíma, að Þorsteinn Már gaf eigendum Hrannar hf loforð um óbreytta útgerðarhætti og það sem meira er að loforðið er skriflegt. Skjalið er enn til og birtist hér afrit af því. Þorsteinn Már Baldvinsson gerði meira en að ganga á bak orða sinna, hann vanefndi skriflega yfirlýsingu sína.“

Nánar á eyjan.dv.is

http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/06/29/salan-guggunni-dregur-dilk-eftir-ser-thorsteinn-mar-baldvinsson-gerdi-meira-en-ad-ganga-bak-orda-sinna-hann-vanefndi-skriflega-yfirlysingu-sina/