Sala í bakaríum brauðs & co nær tvöfaldaðist

Sala í súrdeigsbakaríum Brauðs & Co nam tæpum 408 milljónum króna á síðasta ári og nær tvöfaldaðist frá fyrra ári þegar hún var um 207 milljónir. Brauð & Co hagnaðist um 24,7 milljónir króna í fyrra og dróst hagnaðurinn saman um 2,4 milljónir á milli ára, samkvæmt ársreikningi félagsins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun. 

Rekstrargjöld félagsins Brauðs og co ehf., sem rekur fimm bakarí á höfuðborgarsvæðinu, voru um 379 milljónir í fyrra borið saman við 173 milljónir árið áður. Fjöldi ársverka á síðasta ári var 20,2.

Eignir Brauð & Co námu tæplega 139 milljónum í lok síðasta árs samanborið við 90 milljónir í lok árs 2016. Eigið fé félagsins var um 82 milljónir í lok árs 2017 og námu skuldirnar á sama tíma um 57 milljónum.

Fyrsta bakarí Brauðs & Co var opnað að Frakkastíg í miðbæ Reykjavíkur í byrjun árs 2016. Félagið rekur einnig bakarí í Mathöllinni við Hlemm, í Fákafeni, á Melhaga og við Akrabraut í Garðabæ en þau tvö síðarnefndu voru opnuð fyrr á þessu ári.

Stærsti hluthafi Brauðs og co ehf. er Eyja fjárfestingafélag, í eigu Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, með 51 prósents hlut. Lúkas ehf. á 31 prósents hlut í félaginu og Nói Nóra ehf. 18 prósent.