Rúmlega helmingur andvígur innflutningi á fersku kjöti

Rúmlega helmingur landsmanna, eða um 55 prósent, segist andvígur því að innflutningur á fersku kjöti frá löndum af Evrópska Efnahagssvæðinu (EES) verði heimilaður, en 27 prósent kváðust fylgjandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun MMR á afstöðu landsmanna gagnvart því hvort heimila eigi innflutning á fersku kjöti frá löndum af Evrópska Efnahagssvæðinu.

Í könnuninni kemur fram að andstaða gegn innflutningi á fersku kjöti aukist með auknum aldri, en 70 prósent svarenda á aldrinum 68 ára og eldri kváðust frekar eða mjög andvígir því að innflutningur verði heimilaður, samanborið við 52 prósent þeirra 18-29 ára og 49 prósent þeirra 30-49 ára.

Stuðningsfólk Viðreisnar (68 prósent), Samfylkingar (51 prósent) og Pírata (46 prósent) reyndust líklegust til að segjast fylgjandi því að innflutningur á fersku kjöti af EES svæðinu verði heimilaður. Stuðningsfólk Framsóknar (82 prósent), Miðflokks (80 prósent) og Vinstri-grænna (78 prósent) reyndust hins vegar líklegust til að segjast andvíg því að innflutningur verði heimilaður.

Könnunin var framkvæmd dagana 11. til 14. mars 2019 og var heildarfjöldi svarenda 1025 einstaklingar, 18 ára og eldri.