Ríkisstofnanir eiga að fylgja lögum

Sumarhefti tímaritsins Þjóðmál er komið út. Þar er birt brot úr ávarpi sem Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, flutti á fundi um miðjan apríl síðastliðinn þar sem kynntar voru leiðbeiningar um samkeppnisreglur fyrir fyrirtæki undir nafninu Hollráð um heilbrigða samkeppni. Fundurinn var haldinn á vegum Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs.

Ari lagði í ávarpi sínu fram harða gagnrýni á Samkeppniseftirlitið og sagði meðal annars að margir stjórnendur fyrirtækja hér á landi óttuðust það að gagnrýna eftirlitið:

„Ég vil byrja á að taka fram að ég er ekki sérfræðingur í samkeppnismálum, heldur hef ég upplifað samkeppnislög og framkvæmd þeirra sem stjórnandi í atvinnulífinu og mitt innslag endurspeglar þann reynsluheim. Það er mjög margt sem er brýnt að nefna varðandi umbætur á lagaramma og framkvæmd í samkeppnismálum. Ég vil fyrst og fremst nýta minn tíma hér til að ræða um það sem mér finnst almennt aðfinnsluvert við áherslur Samkeppniseftirlitsins. Ég tel að grundvallarviðfangsefni samkeppnisyfirvalda eigi að vera að vinna gegn lögbrotum, ólögmætu samráði og misnotkun markaðsráðandi stöðu. Þar munu þau oft hefja rannsókn í tilefni af kvörtun. Ég tel líka að það þurfi að horfa á það að markaðir séu opnir og afskipti opinberra aðila skekki ekki myndina, t.d. með niðurgreiddum opin- berum rekstri í samkeppni við einkaaðila eða beinum ríkisstyrkjum. Ég tel hins vegar ekki að Samkeppniseftirlitið eigi að stýra því hvernig atvinnulífið er byggt upp. Almennt talað erum við með markaðsskipulag og markaðurinn er síkvikull. Stjórnendur í hverri grein glíma stöðugt við þá áskorun að bregðast við breytingum, m.a. tæknilegum breytingum sem gjörbylta viðskiptagrundvellinum, og reyna að færa sér það í nyt. Það er ekki raunhæft að fáeinir embættismenn sem eru langt frá þessum aðstæðum, með fullri virðingu fyrir þeim, séu í aðstöðu til að draga nákvæmar línur af einhverju viti um alla samkeppniskraftana í augnablikinu og hvað þá til nokkurrar framtíðar. Í raun tel ég að til lengdar hafi Samkeppniseftirlitið ekki mikið meiri áhrif á almennt verðlag í landinu og hag almennings, með þessum verkum sínum og vangaveltum, heldur en Veðurstofa Íslands getur haft á veðrið,“

segir Ari. Hann segist vera totrygginn vegna eigin reynslu af fjölmiðlamarkaði, þar sem RÚV hafi nýtt yfirburði sína, en Samkeppniseftirlitið hafi litið svo á að miðlarnir væru ekki að keppa á sama markaði.

 

Nánar á eyjan.dv.is

http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/06/30/ari-edwald-um-samkeppniseftirlitid-rikisstofnanir-eiga-ad-fylgja-logum-og-gaeta-hlutleysis-en-ekki-fara-offari-og-stunda-spuna/