Ríkisforstjórar fá afturvirka launahækkun

Kjararáð hefur úrskurðað að laun 48 forstöðumanna ríkisstofnana skuli hækkuð afturvirkt frá 1. desember síðastliðnum. Hækkunin er að meðaltali 10,8 prósent. Hækkunin var ákveðin 14. júní en kjararáð var lagt niður um síðustu mánaðamót.
 
 
Meðal þeirra forstöðumanna sem fá launahækkun í þetta sinn eru forstjóri Einkaleyfastofunnar, forstjóri Matvælastofnunar, forstjóri Persónuverndar, ríkislögreglustjóri og rektorar Háskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Akureyri. Forstjórar heilbrigðisstofnana eru einnig meðal þeirra sem fá hækkun samkvæmt úrskurðinum.
 

Af þeim forstöðumönnum sem fengu hækkun í þessum úrskurði eru 13 með yfir eina milljón í mánaðarlaun. Þar á meðal eru forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, forstjóri Landspítala, forstjóri Samgöngustofu og rektor Háskóla Íslands.