Réttindi íslendinga tryggð eftir brexit

Íslenskum ríkisborgurum búsettum í Bretlandi og Bretum búsettum á Íslandi fyrir útgöngudag Bretlands úr Evrópusambandinu hefur verið tryggð réttindi til áframhaldandi búsetu, fari svo að Bretland gangi úr ESB án samnings.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Samningaviðræðum er nú lokið á milli EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við Bretland um áframhaldandi búseturéttindi borgara, verði útgöngusamningurinn ekki samþykktur.

Undir lok nýliðins árs lauk samningaviðræðum EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland vegna útgönguskilmála Bretlands úr ESB og Evrópska efnahagssvæðinu. Sá samningur verður eingöngu undirritaður ef útgöngusamningurinn milli Bretlands og ESB verður samþykktur og tekur gildi. 

Því hafa áframhaldandi búseturéttindi verið tryggð óháð niðurstöðu viðræðna milli Bretlands og ESB. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fagnaði því að samkomulag væri í höfn. „Íslensk stjórnvöld hafa undirbúið sig fyrir mismunandi sviðsmyndir, meðal annars þann möguleika að Bretland gangi úr ESB án samnings. Þetta er mikilvægur áfangi í þeirri vinnu sem tryggir réttindi íslenskra og breskra ríkisborgara óháð því hvort viðræðum Bretlands og ESB ljúki með samningi þeirra á milli.“