Rán vill leiða neytendur

Rán Reynisdóttir hársnyrtimeistari og fjögurra barna móðir gefur kost á sér til formennsku í Neytendasamtökunum. Hún varð við áskorun hóps fólks sem vill vinna að eflingu samtakanna og hagsmunagæslu almennings, segir í tilkynningu frá Rán. Hún verður þá sjötti frambjóðandinn til formanns.

Rán er ritari Félags hársnyrtisveina og lauk nýverið námi til kennsluréttinda í iðnnámi. Hún er frumkvöðull í grænni hársnyrtingu á Íslandi, sem gengur út á að meðhöndla hár án efna sem eru skaðleg fyrir neytendur, umhverfið eða starfsfólk. Rán er einstæð móðir fjögurra barna á aldrinum tveggja mánaða til átta ára og hefur reynslu af að reka þungt heimili, segir enn fremur.

„Ég þekki af eigin raun hversu varnarlausir neytendur eru án öflugrar hagsmunagæslu og öflugrar verndar, sem aðeins næst með samstöðu almennings,“ segir Rán. „Þegar ég heyrði af hópi fólks með brennandi áhuga fyrir að stórefla Neytendasamtökin og efla samstöðu neytenda gat ég ekki annað en slegist í lið með þeim. Við bætum ekki samfélagið nema með því að taka þátt, bretta upp ermar.“

Rán segir markmið hópsins að vinna á næstu vikum áætlun til eflingar Neytendasamtakanna. Það liggi fyrir að vilji sé innan verkalýðshreyfingarinnar að efla hagsmunagæslu almennings og því sé mikilvægt að tengja Neytendasamtökin við þá vakningu.