Ragnar þór: „það virðist vera svipuð rakspíralykt af þessum málum og mörgum eftirhrunsmálum“ - vill lögreglurannsókn

Fjárfestar og lífeyrissjóðir munu tapa um þremur milljörðum króna vegna niðurfærslu á gengi tveggja sjóða í rekstri Gamma. Ekki eru það einu aðilarnir sem tapa á niðurfærslunni heldur mun hún einnig hafa neikvæð áhrif á afkomu tryggingarfélaga. Tryggingarfélögin TM og Sjóvá hafa bæði sent frá sér afkomuviðvaranir vegna málsins.  Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2 í kvöld um málið.

Kvika banki keypti Gamma í mars á þessu ári. Forstjóri Kviku sagði á þeim tíma að félagið öflugt sjóðstýringafélag og lofaði forstjóri Gamma félagið fyrir þann frábæra árangur sem það hefði náð með fjárfestingum sínum. Í gær sendi bankinn frá sér tilkynningu um að staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri Gamma væri umtalsvert verri en haldið var.

Segja nýir stjórnendur fjárfestingarfyrirtækisins Gamma, sem tóku við í gær, að ástæðuna fyrir þessari gífurlegu niðurfærslu á eignum fyrirtækisins vera meðal annars endurmat á eignum félagsins og hærri byggingarkostnað. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í viðtali við Stöð 2 að hann vilji að rannsókn fari fram á því hvernig eignasafn fyrirtækisins hafi getað nánast gufað upp.

„Það virðist vera svipuð rakspýralykt af þessum málum og mörgum eftirhrunsmálum sem voru til rannsóknar þar sem voru teknir ýmsir snúningar. Það verður fróðlegt að vita hvað var í gangi þarna inni. Það er eitthvað meira en lítið að þarna og það kallar á rannsókn ef ekki lögreglurannsókn. Ég tel að stjórnendur Tryggingafélaganna eigi að fara fram á slíkt ef ekki þá er spurning hvort að Lífeyrissjóður verslunarmanna taki við keflinu en ég hef óskað eftir því að þetta mál verði tekið fyrir á vettvangi sjóðsins,“ segir Ragnar.

Ragnar segir einnig að iðgjöld tryggingarfélaganna TM og Sjóvá gætu hækkað vegna niðurfærslu verðmæti eigna í sjóðum Gamma.

„Þarna eru gríðarlega miklir hagsmunir undir, lífeyrissjóðanna, sjóðfélaga og viðskiptavina tryggingafélaganna. En það hefur komið í ljós þegar slæmt árferði hefur verið í fjárfestingum tryggingafélaganna þá hafa þau hækkað iðgjöld og þar að leiðandi hefur það áhrif á félagsmenn okkar og þar eru nú eitt stykki lífskjarasamningar undir.“