Ráðuneyti og stofnanir keyptu auglýsingar á samfélagsmiðlum fyrir rúmar 20 milljónir króna

Ráðuneyti og undirstofnanir þeirra keyptu auglýsingar fyrir rúmar 20 milljónir króna á samfélagsmiðlum, eins og Facebook og Youtube, á árunum 2015 til 2018. Þetta kemur fram í svörum allra ráðherra vegna fyrirspurnar Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Fréttablaðið greinir frá því að kostnaður vegna kaupa á auglýsingum á samfélagsmiðlum hafi ríflega tífaldast á þessum árum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að hófleg auglýsingakaup ráðuneytis hennar raski ekki stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu íslenskra fjölmiðla.

„Stefnan var að efla íslenska fjölmiðla og þarna er sérstaklega verið að taka ákvörðun um að auglýsa annars staðar. Tekjur flestra fjölmiðla eru í auglýsingasölu og þarna er verið að beina auglýsingatekjum annað. Það hefur aukist á undanförnum árum og það stangast pínu á við þá stefnu. Ef þetta er að aukast þá er ekki endilega jafnvægi þarna í gangi og vísbending um mögulegt stefnuleysi um hvernig eigi að haga þessu innan ríkisins. Mér sýnist á svörunum að það sé engin stefna í þessu. Þetta hefur allavega ekki verið notað sem möguleiki til að efla íslenska fjölmiðla,“ segir Björn Leví í samtali við Fréttablaðið..

Ásmundur Einar Daðason telur hins vegar að auglýsingakaup almennt ekki vera hluta af stefnu ríkisstjórnarinnar til að efla íslenska fjölmiðla á meðan Lilja segir að hófleg kaup á erlendri þjónustu séu ekki til þess fallin að raska stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. 

Fram kemur í svörum ráðherranna að Samgöngustofa keypti auglýsingar á samfélagsmiðlum fyrir 8,9 milljónir á tímabilinu og Landspítalinn keypti auglýsingar á samfélagsmiðlum fyrir 4,6 milljónir.