Ráðherranum virðist ætlað að vera upp á punt í þessari ríkisstjórn

Kolbrún Bergþórsdóttir lætur ríkisstjórnina heyra það í leiðara Fréttablaðsins í dag vegna uppkaupa breska auðkýfingsins James Ratcliffe á Grímsstöðum á Fjöllum og stórum landssvæðum fyrir austan. Leiðarinn ber nafnið „Aumingjaskapur“ og segir Kolbrún stjórnvöld úti á þekju þegar kemur að þessu máli:

„Þjóðinni er fyrir löngu orðið ljóst að ekki er fullkomlega hægt að treysta á að stjórnvöld haldi vöku sinni í mikilvægum málum. Stundum er einfaldlega eins og þau séu úti á þekju. Þá þarf að vekja þau til lífsins og það getur kostað átak. Þetta sýnir sig í mörgu, en ekki síst þegar kemur að því að slá skjaldborg um náttúru landsins. Þá slær jafnvel þögn á málgefnustu stjórnmálamenn sem kjósa að vera stikkfrí.


Á dögunum tók Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, að sér að ávíta stjórnvöld. Þar vann hann þarft verk. Björn benti á að erlendur auðmaður hefur keypt upp heilu jarðirnar hér á landi án þess að brugðist væri við. Björn sagði það vera aumingjaskap dauðans að ekki skyldi tryggt að verðmætt land og landsvæði væru í eigu þjóðarinnar. Björn bóndi er þarna á sömu slóðum og hinn skeleggi Ögmundur Jónasson sem fyrir tæpum tveimur árum sagði það „órækan vitnisburð um vesaldóm íslenskra stjórnvalda“ að hafa heimilað sölu Grímsstaða á Fjöllum til þessa sama auðmanns, sem er víst stöðugt að færa út kvíarnar hér á landi,“

segir Kolbrún.

Nánar á 


http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/07/09/kolbrun-um-gudmund-inga-radherranum-virdist-aetlad-ad-vera-upp-punt-thessari-rikisstjorn/