Páll gegn bjarna

Undafarna daga hefur orðrómur verið á sveimi um að Páll Magnússon sé að íhuga formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi sem fram fer næsta vor.

Fyrst var talið að um grín væri að ræða en sagan heyrist nú úr ýmsum áttum og hermt er að mikill og vaxandi þrýstingur sé á Pál að gefa kost á sér til formanns.  Hugmyndin mun upphaflega komin úr Suðurkjördæmi en Páll Magnússon er fyrsti þingmaður kjördæmisins.  Sjálfstæðismenn í kjördæminu eru ósáttir við hlut sinn og telja að gengið sé ómaklega framhjá Páli að nýju við úthlutun ráðherrasæta flokkisns.  Sunnlendingar sjá ekki rökin fyrir því að taka Kristján Þór Júlíusson fram yfir Pál sem fulltrúa landsbyggðar í ráðherraliði flokksins. 

Stuðningsmenn Páls Magnússonar benda á að Krinstján Þór hafi fengið sín tækifæri í tveimur ríkisstjórnum og ekki nýtt þau.  Hann var heilbrigðisráðherra frá 2013 án þess að setja mark sitt á málaflokkinn.  Svo var hann færður í menntamálaráðuneytið fyrir ári og þá endurtók sagan sig að sögn þeirra sem vilja veg Páls meiri innan flokksins. 

Þó hugmyndin um að Páll Magnússon sækist eftir formennsku í flokknum eigi upphaf sitt í kjördæmi hans er samt mikill áhugu fyrir þessu hjá flokksmönnum um land allt.  Bjarni Benediktsson er mjög laskaður og margir telja að hann verði að víkja til að flokkurinn geti risið til fyrri styrks.  Því hefur verið haldið fram að enginn sé tiltækur innan flokksins til að taka við af Bjarna en stuðningsmenn Páls eru ekki á sama máli.

Páll Magnússon er sextugur að aldri og einn þekktasti og reyndasti fjölmiðlamaður landsins.  Hann hefur bæði verið útvarpsstjóri á Stöð 2 og RÚV auk þess að sinna fréttamennsku og blaðamennsku á ýmsum fjölmiðlum á löngum starfsferli.

Páll er þjóðþekktur maður og naut þess þegar hann fór óvænt í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum á Suðurlandi haustið 2016 og feldi sitjandi ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur úr forystusætinu niður í það fjórða.  Páll kom sá og sigraði.  Hann var nýgenginn í Sjálfstæðisflokkinn en hann er af eðalkrataættum úr Vestmananeyjum sonur fyrrum bæjarstjóra þar.  Faðir hans Magnús Magnússon var á sínum tíma alþingismaður og ráðherra fyrir Alþýðuflokkinn gamla.

Bjarni Benediktsson hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2009.  Í formannstíð hans hefur flokkurinn farið í gegnum fernar Alþingiskosningar og hlotið verstu útkomu frá upphafi.  Einnig fjórðu lökustu.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur 16 þingmenn.  Sama og eftir kosningarnar 2009 en það er minnsti þingmannafjöldi flokksins frá upphafi.

Víst er að staða Bjarna Bendiktssonar er afar veik og ætla má að Páll Magnússon ætti raunverulega möguleika á að ná kosningu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hvort sem Bjarni veldi að víkja eða taka kosningslag við Pál.

[email protected]