Óútskýrð frestun á aðalfundi póstsins

Aðalfundi Íslandspósts ohf. (ÍSP), sem halda átti í gær, var frestað um ótilgreindan tíma að beiðni handhafa hlutabréfa félagsins, það er fjármálaráðherra. Í svari ÍSP við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að stefnt sé að því að halda hluthafafund áður en aðalfundur fer fram. Samtímis frestast birting ársskýrslu. Ekki er tilgreint hvers vegna þetta var ákveðið.

Í upphafi mánaðar var boðað til aðalfundar ÍSP og átti hann að fara fram í höfuðstöðvum félagsins þann 22. febrúar kl. 16. Síðla þann 21. febrúar barst hins vegar tilkynning þar sem fram kom að aðalfundinum hefði verið frestað og að stjórn myndi boða til aðalfundar á ný í samræmi við samþykktir félagsins og ákvæði hlutafélagalaga.

Samkvæmt samþykktum ÍSP skal halda aðalfund fyrir lok júlímánaðar ár hvert. Undanfarin ár hefur hann verið haldinn síðasta föstudag febrúarmánaðar og var stefnt að því nú áður en til hinnar skyndilegu frestunar kom.

Nánar á

https://www.frettabladid.is/frettir/outskr-frestun-a-aalfundi-postsins