Óreiða eða lýðræði

Titill þessara skrifa vísar í „annað hvort eða“ hugsun.

Alþingi var sett á fimmtudaginn 14.des. Átta flokkar eru á þingi, margir óreyndir þingmenn og sumir óttast að reynsluleysið í þingliðinu muni leiða til þess að fátt verði unnið til fulls og af góðri stjórnmennsku. Það verður spennandi að sjá hve vel stjórnarandstaðan mun vinna saman: Miðflokkurinn, Píratar, Viðreisn, Samfylkingin og Flokkur fólksins. Þetta eru harla ólíkir flokkar. Þröskuldur fyrir stjórnmálaflokka til að koma fólki sínu á þing er svo sem ekki neitt lægri en gerist og gengur í kringum okkur svo ekki er neitt óeðlilegt á ferð.

Er eitthvað að óttast? Í umræðum má nefnilega heyra að annað hvort verði sögulegur fjöldi þingflokka til að valda ruglingi í stjórn landsins og stefnuleysi  eða að nú sé betri tími runninn upp. Við séum að upplifa sterkara lýðræði – að fleiri raddir úr samfélaginu hljómi á Alþingi en nokkru sinni fyrr.

Við bíðum á kantinum og sjáum hvað verður. Persónugalleríið er altén meira en nokkru sinni áður.