Átakaþrá eða agaleysi

Ríkissáttasemjari fyrrverandi Magnús Pétursson tjáði sig á stundum um verkefnin sem fyrir lágu. Hins vegar sýnist mér Bryndís Hlöðvarsdóttir stíga fastar til jarðar þegar hún segir  að samningsvinnan þurfi að vera miklu markvissari, bæta þurfi mannskap hjá skrifstofunni, ráða t.d. fleiri vararíkissáttasemjara sem geta tekið vaktina á álagstímum auk hennar sjálfrar og ráða tímabundið inn sem verktaka.

Þetta sagði Bryndís í spjalli okkar á Þjóðbraut í gær.

Átökin sem einkenni íslenskan vinnumarkað eigar rætur sína ábyggilega á hinu pólitíska sviði og lítt skilgreindu hlutverki ríkisvaldsins gagnvart vinnumarkaði. Allir kjarasamningar renna úr gildi áður en nýjir eru gerðir. Núll prósent samninga eru órofnir á Íslandi miðað við 80 prósent í Noregi, svo dæmi sé tekið. Friðarskylda á vinnumarkaði rofnar alltaf hér á landi. Menn koma allt of seint saman til að semja aftur, segir Bryndís. Þetta reddast jú alltaf á Íslandi. Það er líkt og einhver átakaþrá eða spennufíkn búi innra með þjóðinni sem þolir ekki að láta aga sig til.

Í nýjustu árskýrslu á vefsíðu Ríkissáttasemjara skrifar Bryndís um liðið ár 2016 og lýsir það ágætlega ófriðnum sem við búum við:

„Nokkuð var um það á árinu að kjarasamningar væru felldir aftur og aftur. Sem dæmi má nefna deilu Félags grunnskólakennara og sveitarfélaganna, þar sem undirritaðir kjarasamningar voru felldir í tvígang. Í þriðju tilraun voru samningarnir loks samþykktir af félagsmönnum. Í deilu sjómanna og útgerðarmanna var kjarasamningur einnig felldur tvisvar áður en hann var samþykktur og sömu sögu er að segja í deilu Flugfreyjufélags Íslands og SA vegna Flugfélags Íslands en þar var samningur tvífelldur áður en hann var að lokum samþykktur af félagsmönnum“.

Þessi þróun er athyglisverð skrifar Bryndís sem nú hefur boðað samningsfólk á 3ja daga námsstefnu, eitthvað sem ekki hefur verið gert áður hjá embættinu.

„Ríkissáttasemjari getur lagt fram miðlunartillögu til lausnar kjaradeilu, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Úrræðinu hefur ekki verið beitt oft í seinni tíð en til þess kom á árinu 2016 í máli SA vegna RioTinto Alcan og verkalýðsfélaganna í Straumsvík. Haldnir höfðu verið 39 árangurslausir fundir í deilunni þegar ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu til að höggva á hnútinn“.

Ætlum við dansa þennan dans mikið lengur?