Ég læt vatnið renna

Umhverfisvernd hefur aldrei þótt sexý orð. Ekki fyrir svo löngu voru það þreytandi einstaklingar, margir í VG sem settu umhverfisvernd framar öll og það þýddi NEI við allri stóriðju. Sama hvað.

Við erum eitthvað að breytast. Ég varð vör við það í þætti sem ég vinn að núna um umhverfismál á Hringbraut. Plastið og ofurstórir hlunkar í sjónum er að verða mönnum ljóst að sé skelfilegt. Hafið á að vera blátt og þaðan eiga að koma ferskir fiskar til að borða og strandirnar hreinar.

Þetta er misstórt verkefni hjá ríkisstjórum landa heimsins. Sum staðar í heiminum er fátækt og umhverfisvernd samtvinnuð. Umhverfisvernd og menntun líka.

Það er athyglisvert að spá í hvar við Íslendingar erum á þessu rófi. Ég veit um móður sem segir sonum sínum að láta ekki vatnið renna bara stanslaust í vaskinum, séu þeir að tannbursta sig eða eitthvað annað. Hún segir meira að segja við þá að kalda vatnið megi ekki renna stanslaust.

Og afhverju? Jú til að hnykkja á því að hreint vatn er ekki sjálfsagt.