„ómögulegt að slíta þetta í sundur“

Þetta kom fram í Silfrinu í hádeginu í dag þar sem komandi kjaraviðræður voru ofarlega á baugi. Þorsteinn sagði skýr merki um að hagkerfið væri að kólna og nefndi þar vanda flugfélaganna og ferðaþjónustunnar. „Ég myndi segja að á efnahagslegan mælikvarða værum við í hefðbundnu íslensku ofrisi sem við höfum farið í einu sinni á áratug.“

Þorsteinn sagðist þeirrar skoðunar að aðgreiningin milli stjórnmála og hefðbundinnar kjarabaráttu væri orðin mjög óljós. Ríkisstjórnin hefði leikið afleik með því að setja sig inn í hringiðu kjaraviðræðna og kjaraviðræður væru farnar að snúast um hvað ríkisstjórnin ætlaði að leggja á borðið. „Og þar hefur hún lofað upp í ermina á sér.“ Þorsteinn sagði kjaraviðræður eiga að snúast um kaup og kjör og það væri beinlínis óheimilt að beina kröfum til stjórnvalda. „En kröfurnar núna snúast ekki að vinnuveitendum heldur að því sem stjórnvöld ættu að gera.“ Verkalýðshreyfingin væri mikilvægt þrýstiafl í samfélaginu en það ætti ekki að beita kjaradeilum til að knýja á um að þing og ríkisstjórn færu fram með ákveðnar breytingar.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, var þessu ósammála. Verkalýðsbarátta væri í eðli sínu lífskjarabarátta. „Og ef við förum aftur í söguna þá hafa stærstu framfaraskrefin verið stigin við gerð kjarasamninga,“ sagði Drífa og nefndi þar almannatryggingakerfið og uppbyggingu húsnæðiskerfisins. „Það er eiginlega ómögulegt að slíta þetta í sundur.“

Nánar á


http://www.ruv.is/frett/drifa-omogulegt-ad-slita-thetta-i-sundur