Ólöf gagnrýnir ragnar í leiðara fréttablaðsins – ragnar segir leiðarann aumkunarverða tilraun til þöggunar

„Æ meira ber orðið á meinfýsi í opinberum samskiptum fólks. Þá þróun má sennilega að mestu rekja til samfélagsmiðla og kommentakerfa. Þar er föstum skotum skotið í allar áttir og lítið hirt um mannasiði.“

Á þessum orðum hefst leiðari Ólafar Skaftadóttur, ritstjóra Fréttablaðsins, í blaðinu í dag. Í leiðaranum, sem nefnist „Hriktir í afaveldinu,“ ræðir hún um nettröll, nafnleynd og hvernig ungar konur eru talaðar niður.

Ólöf segir að alla tíð hafi verið til fólk af báðum kynjum sem ekki liggi á skoðunum sínum. „[E]n nettröllin eru nýtt fyrirbæri. Vitaskuld er auðveldara að vera með ljótan munnsöfnuð og dónaskap á bak við tölvuskjá, en að hafa uppi slíkan málflutning augliti til auglitis og þurfa að standa fyrir máli sínu.“

„Sum nettröll skrifa undir nafni, en önnur ekki. Mörg þeirra þekkja flestir úr umræðunni. Mörg hafa áður verið í háum stöðum og notið virðingar í samfélaginu. Engu er líkara en þau séu í örvæntingu og eygi síðasta möguleikann til að láta að sér kveða í opinberri umræðu. Nafnleysingjunum virðist líða sérlega illa í eigin skinni og þurfa útrás úr handanheimum sínum með því að rægja samborgara sína og tala niður til þeirra sem eru á öndverðum meiði. Sjaldnast verður úr þessu uppbyggileg rökræða.“ heldur hún áfram.

Ungar konur talaðar niður

Hún segir ungar konur talaðar niður og gagnrýnir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur og Ragnar Önundarson í því samhengi. „Fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar setti sig eftirminnilega á háan hest og þóttist í stöðu til að taka formann velferðarnefndar, Halldóru Mogensen, í kennslustund í þingstörfum í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni á dögunum. Halldóra hafði tjáð þá skoðun sína að hún væri hlynnt frumvarpi um að leyfa þungunarrof fram að lokum 22. viku, sem þingmanninum fyrrverandi var á móti skapi.“

„Annað dæmi er fyrrverandi bankastjóri sem tók Sjálfstæðisflokkinn fyrir í færslu. Hann saknaði greinilega liðins tíma þegar foringjar voru foringjar og sagði landslagið breytt, um það leyti sem umræða um þriðja orkupakkann stóð sem hæst. Stærstu sneiðina fengu varaformaður og ritari flokksins sem fara fyrir málinu og eru báðar ungar konur, en þó á líkum aldri og bankastjórinn var sjálfur þegar honum var treyst til að stýra heilum banka. Hann hélt því fram af alkunnri smekkvísi að varaformaðurinn væri í sínu hlutverki vegna glæsileika og ritarinn því hún væri „sætasti krakkinn“ í flokknum,“ segir hún um Ragnar.

„Margt annað má tína til, ekki síst þegar karlar sem sakna forréttinda sinna tala niður til kvenna sem komast til áhrifa. Vondu fréttirnar eru að enn er til fólk sem lítur svo á að ungar konur eigi ekkert erindi; hvort sem er í stjórnunarstöður fyrirtækja eða í stjórnmál. Góðu fréttirnar eru að sífellt minni eftirspurn er eftir rykföllnum skoðunum þessa hóps,“ segir Ólöf að lokum í leiðaranum.

Ragnar: „Þessi leiðari er aumkunarverð tilraun til þöggunar“

Ragnar var ekki lengi að svara fyrir sig á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann:

„Ég þakka auðsýndan heiður, ábendingar mínar til unga fólksins, sem ekki getur staðið í lappirnar og varið hagsmuni kjósenda, eru taldar þess virði að ég fái ádrepu í leiðara Fréttablaðsins! Þeim er greinilega farið ,,að svíða, sem undir sig míga” eins og Húnvetningar segja[.]“

Ragnar segir leiðarann aumkunarverða tilraun til þöggunar: „Opinberar persónur verða að þola meiri umræðu en aðrir. Það er þeim, eins og öðrum, mikilvægt að fá að vita hvernig aðrir sjá þær. Að vera svo umkringdur já-fólki að maður skynji þetta ekki er ungu, hæfileikaríku fólki hættulegt, því gæti hlekkst á, á framabrautinni. Blaðamenn ættu að meta tjáningarfrelsið mest allra. Þessi leiðari er aumkunarverð tilraun til þöggunar, sem engu máli skiptir.“

„Það er líka ekki til neitt ,,afaveldi”. Lífeyrisþegar eru ekki í neinni stöðu til að ræða megi um þá sem ,,veldi”. Sumir eiga samt enn tjáningarfrelsi og kosningarétt. Unga fólkið sem vill frama strax, jafnvel verða forsætisráðherra, gæti rekið sig á það,“ bætir hann við.