Öll teikn á lofti um að stjórnin falli

Björgvin G. Sigurðsson og og Ingimar Karl Helgason mæta í Ritstjórana:

Öll teikn á lofti um að stjórnin falli

Það er hápólitískur Ritstjóraþáttur sem blasir við áhorfendum Hringbrautar þessa vikuna en þar setjast á rökstólana Björgvin G. Sigurðsson, ritstjóri Suðra og Ingimar Karl Helgason, ritstjóri blaðs stéttarfélaganna og umræðuefnið er svo að segja óþrjótandi.

Dimmir dagar Bjartrar framtíðar koma fyrst við sögu og minningarskrif Össurar Skarphéðinsson um þann brokkgenga flokk sömuleiðis, svo og staða Viðreisnar eftir 100 manna landsþing og þá ekki síður ásigkomulag Framsóknar eftir sína 200 manna helgarsamkomu. Þá fær ríkjandi stjórn sitt pláss í umræðunni en Björgvin segir öll teikn á lofti þess efnis að hún falli áður en kjörtímabilið verður á enda - og hún muni ekki falla á mönnum, heldur málefnum. Ingimar er öllu vonglaðari fyrir hönd Katrínar og hennar manna, konan í brúnni sé langskyggn og ljómandi góður kapteinn.

Róttæka verkalýðspólitíkin sem veður nú uppi af ástæðum sem rekja má til aukins ójöfnuðar, kjararáðs og græðgi þingmanna kemur einnigg við sögu í þættinum og einnig sú staðreynd, sem Björgvin bendir á að stjórnvöld hér á landi taki umferðina úti á þjóðvegunum ekki jafn alvarlega og flugið og siglingar, þau myndu aldrei láta sama ástand líðast í lofti og legi og þau gera á láði.

Svo er lokaspurning þáttarins hvort möguleg hnémeiðsli Gylfa Þórs Sigurðssonar séu ígildi efnahagsáfalls ...

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld og endursýndir í dag, en eru einnig aðgengilegir á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

Nýjast