Óli björn: alveg augljóst að breytingin á þingskaparlögunum mistókst

„Í 71. grein þingskaparlaganna er ákvæði um það að þingforseti geti lagt til að umræðu skuli lokið eftir að hún hafi staðið yfir í að minnsta kosti þrjá klukkutíma, við erum komin pínulítið umfram það þegar kemur að orkupakkanum, eða sex þingmenn þurfa að leggja fram slíka tillögu, og þá ber að greiða atkvæði um hana umræðulaust og meirihlutinn ræður.“

Þetta sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Þar var hann gestur Sigmundar Ernis ásamt Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar. Ræddu þeir meðal annars um vandann sem steðjar að Alþingi nú þegar þingmenn Miðflokksins hafa haldið uppi málþófi um þriðja orkupakkann, sem veldur því að þinghald gæti staðið yfir langt fram eftir sumri.

Óli Björn segir að þrátt fyrir að það sé mögulegt að stöðva umræðuna um þriðja orkupakkann verði að stíga varlega til jarðar. „Þetta verkfæri er auðvitað tiltækt en því hefur ekki verið beitt í 70 ár. Það er auðvitað mikil ákvörðun að nota slíka aðferð og menn þurfa að minnsta kosti að hugsa um afleiðingarnar af því. Ríkisstjórnarmeirihlutinn þarf auðvitað að hugsa um það, þó ég geri nú ráð fyrir því að stór hluti af stjórnarandstöðunni muni greiða slíkri tillögu atkvæði, hvaða áhrif þetta hefur í framtíðinni vegna þess að ekki verða menn allir í ríkisstjórn alltaf.“

Hann segir að þörf sé á endurskoðun á þingskaparlögum:

„Þetta undirstrikar nauðsyn þess að það fari fram endurskoðun á þingskaparlögunum, ég held að það sé alveg augljóst. Breytingin sem var gerð hér fyrir 10-15 árum eða svo, hún hefur mistekist. Menn styttu þá ræðutíma en nú geta menn komið endalaust í annarri umræðu upp [í pontu], í fimm mínútur eins oft og þeir geta og síðan eru andsvör. En andsvör hafa verið misnotuð líka. Hér eru samflokksmenn að spyrja félaga sína, það er ekki það sem var hugsað með andsvörum.“

Umræðurnar er að finna í heild sinni hér: