Nú reynir fyrir alvöru á vg-liða

Nú reynir fyrir alvöru á VG-liða sem verða að velja á milli handbremsunnar í launaskriði innan hins opinbera eða stíga varlega á bensíngjöfina hvað helstu kvennastéttirnar innan ríkisgeirans varðar.

Þetta hafa fjölmiðlamennirnir Jón Kaldal og Óðinn Jónsson á orði í þættinum Ritstjórarnir á Hringbraut í kvöld, en ásamt umsjármanninum Sigmundi Erni minna þeir á að steríótýpan af kjósanda VG sé einmitt framhaldsskólagengin kona í vinnu hjá ríkisstofnun, lesist í tilviki líðandi stundar, ljósmóðir. Pólitísk framkoma í garð þessarar dáðu stéttar verði ein helsta prófraun Vinstri grænna í ríkisstjórnarsamstarfinu fram til þessa og gæti reynst þeim einstaklega erfið ef deilan leysist ekki á allra næstu dögum, benda þessir þaulreyndu fjölmiðlamenn á, en minna líka á að þær stöllur, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir hafi almennt staðið sig mjög vel fram til þessa - og njóti þess sumpart nú við valdataumana að hafa ekki ekki blásið hvað ákafast i þotulúðrana á meðan þær voru í stjórnarandstöðu, ólíkt mörgum vinstrikörlunum sem hafi skipt úm ham frá stjórnarandstöðu til stjórnar.

Launamunur í samfélaginu er einnig tekinn fyrir í Ritstjórunum, svo og rosalegur sýnileiki Dags B. Eggertssonar á síðustu vikunum fyrir borgarstjórnarkosningar - og svo er talinu vitaskuld vikið að strokufanganum Sindra Þór Stefánssyni í lok þáttar, flótta hans og frelsinu endasleppa.

Ritstjórarnir byrja klukkan 22:00 í kvöld.